
Vinur Vilhjálms Bretaprins og fyrrverandi þátttakandi í raunveruleikaþættinum Big Brother er látinn eftir að hafa fallið um 30 metra af þaki hótels í Vestur-Lundúnum. Ben Duncan, sem kynntist prinsinum og eiginkonu hans, Katrínu, þegar þau stunduðu nám við háskólann í St. Andrews, var sagður hafa verið hluti af innsta vinahópi þeirra.
Duncan lést 30. október, 45 ára að aldri, eftir að hafa fallið af þaki sjö hæða byggingar í West End. Lögreglan í Lundúnum var kölluð út að hótelinu Trafalgar St James eftir að tilkynnt hafði verið um „mann á þakinu“. Talið er að Duncan hafi fallið af þakbarnum, sem er með háum plastveggjum í kringum sig til öryggis.
Duncan varð landsþekktur eftir að hafa tekið þátt í 11. þáttaröð Big Brother. Hann var rekinn úr þættinum á 52. degi, en sigurvegari þeirrar seríu var Josie Gibson. Hann hafði einnig komið fram í þáttum á borð við Come Dine With Me, Ladette to Lady og Celebrity Coach Trip.
Ben var auk þess í samskiptum við ýmsa þekkta einstaklinga í Bretlandi, þar á meðal lávarðinn Peter Mandelson, stjórnmálamanninn Michael Portillo og hönnuðinn Nicky Haslam.
Vinur hans, fjölmiðlamaðurinn Mike Hollingsworth, heiðraði minningu hans í færslu á Facebook:
„Kæri, kæri vinur minn, Benjamin (Ben) Duncan, hefur yfirgefið okkur.
Hann lifði lífinu eins og Pétur Pan, drengurinn sem aldrei vildi verða fullorðinn. Hans verður sárlega saknað af mörgum vinum sínum, sem elskuðu sjarma hans, húmorinn, smitandi hláturinn og meðfædda stíltilfinningu hans. Heimurinn er fátækari án hans. Hvíl í friði, Benji.“
Annar vinur, sem vildi ekki láta nafn síns getið, sagði við Daily Mail:
„Ben var alltaf líf og sál hverrar samkomu. Þótt hann hafi komið fram í raunveruleikaþáttum voru sannar ástríður hans stjórnmál og tónlist. Á síðustu árum dró hann sig meira í hlé og glímdi við svefnleysi. Það er hrikalegt að hann sé farinn svona ungur.“
Árið 2010, áður en Vilhjálmur prins og Katrín Middleton giftu sig, lýsti Duncan vináttu sinni við þau opinberlega. Hann sagðist hafa verið einn þeirra fyrstu sem tók eftir því að á milli þeirra væri blossandi samband:
„Þar sem við höfðum Villa og Kötu í okkar hópi voru konunglegir lífverðir um allt. Við vissum að þau höfðu náð saman og að eitthvað væri í gangi, en þau fengu bara frið til að vera saman.“

Komment