
Ný rannsókn sýndi fram á að gervisykurinn erytrítól hefur neikvæða virkni á heilastarfsemi.
Erytrítól er vinsæl tegund gervisykurs þar sem það hefur lítil sem engin áhrif á blóðsykur og insúlín ásamt því að hafa engar hitaeiningar. Helst má finna erytrítól í sykurlausum bökunarvörum, nammi, tyggjói og ís. Vinsæl vara sem inniheldur erytrítól er meðal annars Halo Top „heilsuísinn“. Einnig innihalda algengustu gervisykrarnir fyrir heimabakstur erytrítól í miklu magni. Þessar vörur eru vinsælar hjá fólki í átaki sem reynir að skerða sykurneyslu en það ber að varast að neyta mikils gervisykurs.
Síðastliðin ár hafa komið út fjöldi rannsókna sem tengdu erytrítól við aukna áhættu á hjarta- og heilasjúkdómum, svo sem blóðtappa og heilablóðföll. Þessi nýlega rannsókn frá Háskólanum í Colorado bendir til þess að erytrítól geti skaðað frumur í blóð-heilaskiljunni (blood-brain barrier) sem er öryggiskerfi heilans sem heldur skaðlegum efnum úti á meðan það hleypir næringarefnum inn.
Í rannsókninni útsettu vísindamenn frumur úr blóð-heilaskiljunni fyrir styrk erytrítóls sem samsvarar magni sem mælist í blóði eftir að hafa drukkið gosdrykk með sætiefninu. Þeir sáu keðjuverkun frumuskaða sem gæti gert heilann viðkvæmari fyrir blóðtöppum, sem eru ein helsta orsök heilablóðfalla.
Í Bandaríkjunum er algengara að gosdrykkir og orkudrykkir innihaldi erytrítól en tíðkast á Íslandi. Vinsælustu orkudrykkir Íslendinga svo sem Collab og Nocco nota gervisykurinn súkralósa og margir gosdrykkir svo sem Pepsi Max nota aspartam. Enginn gervisykur virðist laus við skaðleg áhirf en ráðleggingar á Heilsuveru segja að mikil neysla drykkja sem innihalda sætuefni geti aukið líkur á sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómum.
Komment