
Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason ræddi við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu í gær þar sem þau fóru meðal annars yfir hið svokallaða „byrlunarmál“ Páls Steingrímssonar skipstjóra. Þar skýtur þingmaðurinn föstum skotum á Ríkisútvarpið og Helga Seljan fjölmiðlamann, sem vann á sínum tíma að umfjöllun um mútumál Samherja í Namibíu.
Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sagði Arnþrúði frá því að Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar skipstjóra, hefði sent nefndinni erindi þar sem farið var fram á að skipuð yrði sjálfstæð rannsóknarnefnd Alþingis sem myndi rannsaka byrlunarmálið svokallaða. Það mál snýr að því að Páll Steingrímsson, skipstjóri Samherja, heldur því fram að fyrrverandi eiginkona hans hafi eitrað fyrir honum og stolið síma hans á meðan hann lá í lífshættu inni á spítala. Hún hafi síðan komið símanum í hendur starfsfólks Ríkisútvarpsins sem hafi opnað símann og sent efni úr honum á Stundina og Kjarnann, sem síðan birti umfjöllun upp úr gögnum símans.
Lögreglan á Norðurlandi eystra felldi niður rannsókn málsins eftir hátt í þriggja ára rannsókn. Ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun. Sex blaðamenn voru rannsakaðir af lögreglunni vegna málsins.
„Getur Helgi Seljan bara alltaf fengið vinnu hjá Ríkisútvarpinu þegar honum hentar?“
Í viðtalinu kemur Arnþrúður inn á sparnaðartillögur almennings sem ríkisstjórnin óskaði eftir og segir Ríkisútvarpið hafa verið ofarlega á blaði þar, og að fólk sé mjög gagnrýnið á þá stofnun ríkisins, meðal annars þegar kemur að hlutleysi.
Vilhjálmur tekur undir þau orð og bætir um betur og segir: „Já, við eigum einmitt að sinna slíku eftirliti, að sjálfsögðu. Eins og núna, þá virðast bara einhverjir blaðamenn geta gengið inn og út en þetta eru auglýstar stöður. Getur Helgi Seljan bara alltaf fengið vinnu hjá Ríkisútvarpinu þegar honum hentar? Það er örugglega fullt af öðrum blaðamönnum sem vilja fá vinnu hjá Ríkisútvarpinu. Fengu þeir sama tækifæri og hann? Við eigum að spyrja svona spurninga”.
Fram kom nýverið að fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan, sem var einn þeirra er fjallaði meðal annars um Samherjamálið svokallaða árið 2019, er varðaði greiðslur útgerðarfélagsins til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu, hefði hafið störf á Ríkisútvarpinu að nýju við fréttatengda þætti í útvarpi og sjónvarpi. Helgi var þó ekki einn þeirra fjölmiðlamanna sem voru til rannsóknar hjá lögreglu vegna umfjöllunar um svokallaða skæruliðadeild Samherja.
Vilhjálmur Árnason hefur rætt möguleikann á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að koma á rannsóknarnefnd vegna ásakana Páls Steingrímssonar um byrlun og símastuld, eftir kröfu lögmanns Páls þess efnis. Blaðamannafélag Íslands hefur á móti kallað eftir rannsókn á því að lögreglan á Norðurlandi eystra skyldi hafa haldið blaðamönnum í stöðu sakborninga í tæp þrjú ár.
Komment