
Tilkynningum til lögreglu um kynferðisbrot hefur fjölgað um 7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 miðað við meðaltal síðustu þriggja ára, samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Sérstaklega vekur athygli að vændisbrotum hefur fjölgað verulega, eða úr 15 að meðaltali síðustu ár í 35 mál á tímabilinu.
Í skýrslunni kemur fram að alls hafi 459 kynferðisbrot verið tilkynnt til lögreglu frá janúar til september, sem jafngildir um 50 málum á mánuði. Flest brot voru tilkynnt í ágúst, eða 63 talsins. Tilkynningum um kynferðisbrot fækkaði tímabundið þegar heimsfaraldur kórónuveiru stóð sem hæst, en hefur aukist á ný undanfarin ár.
Af þeim brotum sem framin voru á árinu og þegar hafa verið tilkynnt, eru 156 nauðganir, 94 kynferðisbrot gegn börnum, 95 tilfelli kynferðislegrar áreitni eða stafrænna brota og 29 blygðunarsemisbrot. Þá voru 35 vændisbrot skráð á tímabilinu, brot sem eru yfirleitt uppgötvuð við frumkvæðisvinnu lögreglunnar.
Flestir gerendur karlar – þolendur yfirleitt ungar konur
Samkvæmt skýrslunni voru 94% grunaðra í kynferðisbrotamálum karlar, og tæplega 30% þeirra undir 25 ára aldri. Hvað nauðganir varðar var rúmur þriðjungur gerenda yngri en 25 ára. Þolendur voru í 86% tilvika konur og tveir af hverjum þremur undir 25 ára aldri. Næstum helmingur þolenda, eða 47%, var undir 18 ára aldri.
Kynferðisbrot um helgar óbreytt – færri nauðganir í sumar
Í sumar voru 64 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu sem áttu sér stað um helgar, svipaður fjöldi og síðustu tvö ár. Nauðgunum um helgar fækkaði þó, 17 voru skráðar í ár samanborið við 22 árið á undan. Sjö brot tengdust kaupum á vændi, en þau voru 10 í fyrra og ekkert sumarið 2022.
Um 67% brotanna voru tilkynnt á höfuðborgarsvæðinu, en 33% á landsbyggðinni, sem er svipuð dreifing og áður.
Upplýsingar um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu má finna á ofbeldisgátt Neyðarlínunnar, 112.is, þar sem einnig er hægt að tilkynna brot og fá upplýsingar um úrræði vegna kynferðisofbeldis.
Heildarskýrsluna má nálgast á vef lögreglunnar.

Komment