
Mörgum starfsmönnum sem starfað hafa á útvarpsstöðinni X977 hefur verið sagt upp en útvarpsstöðin er í eigu Sýnar.
„Daglegum útvarpsmönnum eins og mér og Danna var sagt upp ásamt nánast öllum sérþáttastjórnendum,“ skrifar Aðalbjörn Tryggvason, sem hefur starfað lengi á útvarpsstöðinni, á Facebook. Vísar hann í Daníel Jón Baróns Jónsson, sem hefur lengi starfað með honum á stöðinni.
„Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími, skemmtileg vinna, skemmtilegir hlustendur og samstarfsfólkið frábært. Geng þakklátur frá borði.“
Samkvæmt Daníel var honum sagt upp í sparnaðarskyni af yfirmönnum sem hann segist aldrei hafa hitt.
„Vitur maður sagði eitt sinn: Maður vex á X-inu, en maður á ekki að vaxa með X-inu. Það er fín mantra þessa dagana þar sem Sýnar fólkið vildi spara smá pening og ákváðu að segja mér upp (veit reyndar ekki hverjir því aldrei hef ég hitt þessa dularfullu yfirmenn),“ sagði Daníel um uppsögn sína.
X977 hefur árum saman verið ein vinsælasta og virtasta útvarpsstöð landsins en hún einbeitir sér að rokktónlist og hefur boðið upp á þætti á borðið við Stokkið í eldinn og Syndaseli.
Komment