
Héraðssaksóknari hefur ákært tvær unglingsstúlkur fyrir stórfellt brot á fíkniefnalögum eftir að þær reyndu að flytja rúmlega 20.000 töflur til landsins með flugi frá Þýskalandi.
Töflurnar innihéldu efnasambandið dímetýl-etóníatasen, sem er afleiða etónítasens, og voru faldar í lyfjaspjöldum merktum OxyContin.
Annars vegar er um að ræða Anjes Leyen Rohde, ríkisborgara Þýskalands, fædda árið 2005, en hinnar stúlkunnar er ekki getið með nafni þar sem hún hefur ekki náð 18 ára aldri. Þær komu báðar til Íslands með flugi frá Frankfurt þann 30. mars síðastliðinn.
Samkvæmt ákærunni voru samtals 20.050 töflur fluttar inn; þar af fundust 12.200 í fórum Anjesar og 7.850 hjá hinni stúlkunni. Lögregla telur að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.
Saksóknari fer fram á að báðar stúlkurnar verði dæmdar til refsinga og að töflurnar verði gerðar upptækar. Einnig er krafist að þær greiði allan sakarkostnað.
Komment