
Margrét Rut Eddudóttir, meðlimur samtakanna No Borders Iceland, mætti í það sem kokteilboð dómsmálaráðherra í gær, þar sem hún vakti athygli á því sem hún kallar fjandsamlega stefnu stjórnvalda í garð kvenna á flótta. Ráðherran hélt boðið í tilefni af Kvennafrídeginum.
Margrét benti á að tveggja vikna gömlum tvíburasystrum, fæddum með keisaraskurði, hafi ásamt foreldrum sínum og eldri bróður verið vísað úr landi en Mannlíf hefur áður fjallað um fjölskylduna. Fjölskyldan er nú í Króatíu en faðirinn hefur verið aðskilinn frá fjölskyldunni og vistaður í varðhaldi. Móðirin, Mariiam, þurfi aðstoð við flestar daglegar athafnir og bíði fjölskyldan nú óttaslegin vegna væntanlegs brottflutnings til Rússlands.
Að sögn samtakanna höfðu faðirinn og Mariiam flúið ofsóknir í Rússlandi og líði fjölskyldunni mjög illa á flóttanum.
Margrét gagnrýndi einnig vinnubrögð Bríetar Olgu Dmitrieva, starfsmanns ríkislögreglustjóra, sem hún segir hafa lýst því yfir við fjölskylduna að hún myndi „persónulega sjá til þess“ að Mariiam fengi ekki að fæða börnin á Íslandi og að þeim yrði öllum gert að snúa aftur til Rússlands.
No Borders Iceland kallar eftir rannsókn á aðdraganda brottflutningsins og að stjórnvöld sýni raunverulega samstöðu með konum á flótta. „Samstaða með konum þarf að ná til allra kvenna, ekki aðeins þeirra sem eru ríkar,“ sagði Margrét.
Samtökin hvetja almenning til að fylgjast með málum þeirra sem leita verndar á Íslandi og krefjast mannúðlegra úrræða fyrir fjölskylduna og önnur sem standa frammi fyrir brottvísun.
Hér má sjá myndbönd frá atvikinu:

Komment