
Þrír karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri hafa verið ákærðir fyrir aðild að innflutningi þriggja kílóa af kókaíni til Íslands í byrjun apríl. Efnin voru falin í þremur pottum sem einn mannanna, sá elsti í hópnum, hafði meðferðis í farangri sínum um borð í Norrænu. Austurfrétt sagði frá málinu.
Tveir mannanna eru erlendir ríkisborgarar en sá þriðji er með skráð lögheimili á Íslandi. Aldur þeirra spannar frá 55 til 65 ára; sá yngsti er fæddur árið 1969 og sá elsti árið 1959.
Samkvæmt ákæru bar sá elsti efnin til landsins án þess að vekja sérstaka athygli við komuna til Seyðisfjarðar. Hann hélt áfram ferð sinni til Reykjavíkur með rútu og virðist hafa verið yfirvegaður og rólegur. Hann er talinn hafa gegnt hlutverki burðardýrs í málinu og fengið greitt um 5.000 evrur, sem samsvarar um 720.000 krónum, fyrir sinn þátt.
Yngsti maðurinn er sakaður um að hafa skipulagt smyglið með því að hafa samband við óþekktan aðila á Spáni til að útvega efnin. Þriðji maðurinn hafði hins vegar annast undirbúning hérlendis, meðal annars með því að útvega verkfæri og sinna erindum fyrir hópinn.
Þremenningarnir voru handteknir í Reykjavík, í bifreið á leið til Akraness, þar sem grunur leikur á að þeir hafi ætlað að opna pottana og undirbúa efnin til sölu.
Samkvæmt nýjustu aðgengilegu verðkönnun SÁÁ á vímuefnamarkaðnum frá janúar 2023 er áætlað markaðsvirði kókaínsins rúmar 49 milljónir króna.
Komment