
Gönguhópur sem gekk á Fimmvörðuhálsi síðastliðinn laugardag, vissi vart hvað á sér stóð veðrið þegar þýskur ferðamaður féll af himnum ofan nærri þeim.
Ferðamaðurinn, sem var á að giska í kringum 25 ára aldurinn, hafði verið í fjögurra manna hópi að svífa á paramótor yfir hópnum en þrír þeirra komust yfir hálsinn á meðan sá fjórða hlekktist á, en vélin drap á sér og hann sveif vélarlaus til jarðar, nærri gönguhópnum, sem var á leið frá Skógum yfir í Bása.
Samkvæmt Bjarnheiði Erlendsdóttur, sem var í gönguhópnum, hélt hópurinn í fyrstu að ísbjörn væri þar mættur á Fimmvörðuhálsinn.
„Við héldum nú fyrst að þetta væri ísbjörn, úr fjarlægð því fallhlífin var svona bosmamikil og hvít,“ sagði Bjarnheiður í samtali við Mannlíf. Aðspurð hvort hópurinn hafi ekki skotið á „ísbjörninn“, svaraði hún því til að enginn hafi nú verið með skotvopn á sér.

Manninum varð ekki meint af en hann bað gönguhópinn um aðstoð en það eina sem hægt var að gera var að bjóða honum gistingu í Skála á vegum Útivistar á Fimmvörðuhálsi, sem hann og þáði.
„Hann gerði sér heita kjötsúpu að góðu og svaf bara ágætlega. Morguninn eftir þáði hann hafragraut og með þvíí áður en hann fór að skrönglast með allt í fanginu. Hann vissi ekki hvaða brekkur hann átti eftir að klöngrast með, skaflana sem maður sökk í ...“ sagði Bjarnheiður að lokum.
Komment