
Björn Leví Gunnarsson telur Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins hafa framið stjórnarskrárbrot þegar hún, sem varaforseti Alþingis, sleit fundi Alþingis án umboðs frá forseta þingsins.
„Ég býst ekki við að fólk skilji hvað þetta er alvarlegt mál. Það er fátt sem er eins heilagt fyrir þingstörfin og fundarstjórn forseta.“ Þannig hefst Facebook-færsla Björns Levís, fyrrverandi þingmann Pírata, sem hann birti nú í morgun. Björn Leví bendir á að hann hafi sjálfur verið varaforseti Alþingis og viti því hver skylda hans er. Björn Leví heldur áfram:
„Ég hef verið varaforseti Alþingis og skylda varaforseta er virðing gagnvart forseta, ræðumanni, þingsalnum og þinginu öllu. Ég hef setið á forsetastól sem forseti án þess að vita hvort ég væri að fara að slíta fundi eða ekki - af því að forseti sagði engum hversu lengi fundur átti að standa.
Persónulega finnst mér það fáránlegt, að forseti geti bara ekki sagt fólki það, þegar dagskráin er svona. Ekki einu sinni starfsfólki þingsins er sagt frá því. En þannig er starfið og ábyrgðin. Þingfundur er heilagur samkvæmt stjórnarskrá.
"Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess".“
Í niðurlagi færslu sinnar segist Píratinn fyrrverandi meta málið sem svo að Hildur hafi brotið stjórnarskránna með því að slíta fundinum í gær.
„Þannig að þegar varaforseti tekur sér dagskrárvald með því að slíta fundi í óþökk forseta þá er það beinlínis stjórnarskrárbrot - að mínu mati.
Þannig að þegar ég segi alvarlegt, þá meina ég svo alvarlegt.“
Komment