
Fyrr í vikunni var greint frá því að tveir heimilislausir karlmenn í Reykjavík hefðu greinst með virk berklasmit. Höfðu þeir dvalið í gistiskýlum borgarinnar og kaffistofu Samhjálpar og þá mögulega útsett aðra fyrir smiti.
Í viðtali við Kristínu Davíðsdóttur og Önnu Tómasdóttur hjúkrunarfræðinga á RÚV segja þær frá því að Afstaða, félaga fanga, hafi veitt aðstoð í smitrakningu og öðru en slíkt er mjög erfitt hjá fólki sem er ekki með fasta búsetu eða farsíma.
Nauðsynleg þjónusta
Mannlíf hafði samband við Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu, til að spyrja nánar út í aðkomu félagsins.
„Afstaða hefur, í samstarfi við Landspítalann, verið að sinna sérstöku verkefni í að aðstoða heimilislausa og jaðarsetta hópa sem hafa verið útsettir fyrir berklasmiti. Við erum meðvituð um mikilvægi þess að nálgast þessa hópa með faglegum og traustum hætti til að tryggja að þeir fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, sem þeir annars fengju ekki,“ sagði við Guðmundur við Mannlíf.
„Í gegnum okkar sérfræðiþekkingu á málefnum fanga, heimilislausra og fólks með flókinn og margþættan vanda, höfum við komið að stofnun sérstaks teymis hjá Landspítalanum. Hlutverk okkar í þessu teymi hefur verið að ráðleggja og aðstoða hjúkrunarfræðinga við lyfjagjafir og skimanir, sem hafa farið fram á götum borgarinnar, í neyðarskýlum, fangelsum og jafnframt hjá starfsfólki á þessum stöðum sumum hverjum.“
10 til 15 sem smitast á ári
Samkvæmt Guðmundi hefur félagið tekið þátt starfinu síðan síðasta haust en þá var fyrsta berklasmitið greint í hópnum. Síðan þá hafa nokkur hundruð einstaklingar verið skimaðir.
„Um 10 til 15 einstaklingar eru að greinast árlega berkla hér á landi og því miður sýnir staðan að fjöldi smitaðra fer hækkandi, en í dag eru í þessum hópi aðeins tvö virk smit og örfá óvirk smit. Við höfum unnið hörðum höndum að þessu málefni, en því miður verður að segjast að þekking og áætlanir á þessum málaflokki hjá heilbrigðisyfirvöldum eru takmarkaðar og því hefur teymið þurft að þróa og nánast leggja undir sig ýmis úrræði sem ekki hefur verið hugsað til þessara aðgerða en var afar nauðsynlegt. Aukið samstarf við fleiri stofnanir er nauðsynlegt að fara að undirbúa, til framtíðar.“
Guðmundur segir að markmið Afstöðu sé að þrýsta á stjórnvöld að veita þessa þjónustu og að bregðast við þessu vandamáli með faglegri hætti.
„Við trúum því að samvinna allra aðila sé lykillinn að árangri í þessum erfiðu málum og að nauðsynlegt hafi verið fyrir Landspítalann að fara óhefðbundnar leiðir til að nálgast þennan viðkvæma hóp til þess að ekki myndi brjótast út faraldur í landinu og má þakka Landspítalanum fyrir að horfa langt út fyrir kassann í þessu máli.“
Þá segir hann einnig að félagið sé þakklátt fyrir þann stuðning sem það hefur fengið í þessari baráttu.
Komment