683 hafa verið atvinnulausir í meira en 18 mánuði en þetta kemur fram í skriflegu svari frá Ástu Ásgeirsdóttur, deildarstjóra hjá Vinnumálastofnun, við fyrirspurn Mannlíf. Vinnumálastofnun vildi hins vegar ekki gefa upp hversu margir af þeim einstaklingum þiggi atvinnuleysisbætur.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur gefið það út að til standi að stytta bótarétt en hámarksbótaréttur er nú 30 mánuðir en verður 18 mánuðir ef áætlun ríkisstjórnarinnar ganga eftir.
Lágmarksskilyrðum til þess að fá greiddar bætur verður breytt og verður sá sem misst hefur vinnuna að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í eitt ár en eins og lögin eru í dag er lágmarkið allt niður í þrjá mánuði.
„Nú ætla stjórnvöld sér að stytta tímabil atvinnuleysistrygginga um heilt ár og um leið að lengja ávinnslutímabilið. Og þetta er í sjálfu sér svona brot á því samkomulagi eða jafnvægi sem hefur verið á íslenskum vinnumarkaði. Og ég lít á þetta sem atlögu að kjörum og réttindum launafólks,“ segir Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, við RÚV um málið.
Komment