
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra kynnir, sem staðgengill umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, tillögu í Samráðsgátt stjórnvalda um flokkun Hamarsvirkjunar í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar.
Verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar skilaði þann 10. mars síðastliðinn umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tillögu að flokkun fimm nýrra virkjunarkosta en um er að ræða virkjunarkostina Bolaöldu, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hamarsvirkjun.
Það kemur fram að verkefnastjórnin leggur til að Bolaalda, ásamt annað hvort Skúfnavatnavirkjun eða Tröllárvirkjun, verði flokkuð í orkunýtingarflokk áætlunarinnar; seinni virkjanakostirnir tveir eru innan sama vatnasviðs.
Þá er á áætlun að Hvanneyrardalsvirkjun verði flokkuð í biðflokk áætlunarinnar - og einnig að Hamarsvirkjun verði flokkuð í verndarflokk áætlunarinnar.
Í mars síðastliðnum ákvað Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að víkja sæti sem umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra við meðferð málsins vegna tengsla sinna við einn af framkvæmdaraðilum og var Logi Einarssyni, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, skipaður ráðherra í málinu.

Hefur settur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákveðið að setja breytingu á tillögu verkefnisstjórnar í samráðferli þess efnis að Hamarsvirkjun verði flokkuð í biðflokk áætlunarinnar en ekki er lögð til breyting á tillögum verkefnisstjórnar á flokkun hinna virkjanakostanna.
Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er kveðið á um að ráðherra taki tillögu verkefnisstjórnar til skoðunar, en það er svo verkefnisstjórnin sem fer með ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðherra.
Fari svo að ráðherra leggi hins vegar til breytingar á tillögu verkefnisstjórnar þá skal leita umsagna og kynna breytingarnar almenningi áður en tillagan er lögð fram á Alþingi - sem fer með endanlegt ákvörðunarvald um flokkun virkjunarkosta.
Af umsögnum umsagnaraðila við tillögu verkefnisstjórnar má glöggt sjá að sveitarfélögin á svæðinu leggjast gegn flokkun Hamarsvirkjunar í verndarflokk. Þau vísa meðal annars til þess að raforkukerfið á Austurlandi sé veikburða; skortur sé á framboði á raforku á svæðinu og slíkt hamli atvinnuuppbyggingu. Þá hefur efnahagslegur ávinningur virkjunarkostsins verið metinn nokkuð jákvæður. Einnig hafa framkvæmdir við stór og hagkvæm verkefni tafist allverulega og ríkir núna alger óvissa um marga virkjunarkosti vegna jarðhræringa víða á Íslandi.
Hefur því í ljósi þessa verið talið afar brýnt að forgangsraða skoðun sem og frekari rannsóknum á virkjunum sem staðsettar eru utan helstu umbrota- og hamfarasvæða landsins.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, hefur í hyggju að leggja fram frumvarp með breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, og er markmiðið það að auka skilvirkni sem og að bæta málsmeðferð.
Jafnframt þessu hefur Jóhann Páll sett í samráðsgátt drög að frumvarpi til breytinga á raforkulögum. Þar er kveðið á um að stjórnvöld hér á landi skuli á fjögurra ára fresti leggja fram heildstæða stefnu um öflun raforku og segir ráðherra að „í þeirri stefnu verða skilgreind töluleg markmið um aukna raforkuframleiðslu, sem verða höfð til hliðsjónar við gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar hverju sinni“ og gerir Jóhann Páll ráð fyrir því að „tillaga til þingsályktunar um breytingu á verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð fram á Alþingi næsta haust.“
Komment