
Svala Magnea Ásdísardóttir, fjölmiðlafræðingur, sjálfstætt starfandi blaðamaður og formaður félagsins Málfrelsi, birti í dag sterka færslu á Facebook þar sem hún gagnrýnir harðlega aðgerðir Ísraelshers á Gaza og segir vitnisburð almennings á svæðinu, „með símana að vopni“, vera „síðasta haldreipið vitnisburð um ástandið þar“, þar sem blaðamenn hafi flestir verið drepnir.

Í færslunni skrifar hún að Ísrael „keppist nú við að sprengja hvert virðulega háhýsið á fætur öðru í Gazaborg. Heilu blokkirnar hrynja nú niður, ég hef aldrei séð aðra eins tortímingu og einbeittan brotavilja.“ Hún segir að alþjóðlegir blaðamenn fái ekki aðgang að svæðinu og því hafi „yfir 240 starfandi palestínskir fréttamenn, bæði konur og karlar, verið sprengd til dauða þarna. Viljandi. Þeir eru viljandi gerðir að skotmörkum þarna.“
Eins og áður segir, bendir Svala á að vitnisburðir almennra borgara séu orðnir eina leiðin til að miðla upplýsingum frá Gaza. „Vitnisburðir venjulegs fólks með símana á lofti er síðasta haldreipið,“ skrifar hún og bætir við að ísraelski herinn sprengi jafnvel símahleðslustöðvar, kaffihús, markaði, sólarsellur og vatnshreinsunarmiðstöðvar til að torvelda upplýsingamiðlun.
Hún undirstrikar að hvert tengslanet sem íbúar nái að opna við umheiminn jafngildi neyðarhrópi.
„Hver einasta tilraun til að tengjast internetinu og þýða arabísku yfir á ensku er gríðarlegt afrek. Að ná að taka upp og hlaða upp myndefni af því sem er að gerast þarna er daglegur sigur og eina vonin um björgun í hugum fólks,“ segir hún.
Í lok færslunnar spyr Svala lesendur beinskeyttrar spurningar:
„Ert þú að hlusta á neyðarhrópin í þessari hryllilegu helför samtíma okkar? Eða hundsar þú þau?“
Komment