
Kæru nefndarmenn í fagráði um velferð dýra,
Eurogroup for Animals, evrópskt samband dýraverndarsamtaka með 107 aðildarfélög, óska eindregið eftir að ekki verði veitt nýtt leyfi fyrir blóðsöfnun úr fylfullum hryssum. Þessi aðferð sem notuð er til framleiðslu á PMSG1 er ekki aðeins ógn við velferð hesta, heldur hefur notkun þess skaðleg áhrif á velferð og heilsu búfjár og leiðir til misnotkunar á fjölda tegunda með því að stýra og flýta náttúrulegum lífeðlisfræðilegum ferlum, þrátt fyrir að engin læknisfræðileg réttlæting sé fyrir hendi.
Þessi kerfisbundna misnotkun á hestum sem knúin er áfram af efnahagslegum hagsmunum hefur ítrekað verið fordæmd af þýsku dýravelferðarsamtökunum Animal Welfare Foundation og Tierschutzbund Zürich, sem og af Dýraverndarsambandi Íslands. Staðan er óásættanleg.
Í fyrsta lagi er magn og tíðni blóðtöku (5 lítrar af blóði á viku) langt umfram allar alþjóðlegar leiðbeiningar fyrir hross sem ekki eru fylfull.
Í öðru lagi er aldrei mögulegt að tryggja heilsu og velferð viðkomandi dýra í þessari starfsemi. Blóð er tekið með valdi úr fylfullum hryssum sem ekki eru vanar meðhöndlun manna. Dýrin eru barin, slegin með pískum og sparkað og potað í þau. Folöld eru aðskilin frá mæðrum sínum, á meðan hryssurnar eru skorðaðar í þröngum básum með höfuðið bundið hátt sem vekur upp hjá þeim sterkt flóttaviðbragð.
Að lokum þá er mikil hætta á meiðslum og sársauka vegna ófullnægjandi aðbúnaðar og vegna þeirra aðferða sem notaðar eru við að binda hryssurnar, sérstaklega þegar hryssur reyna að sleppa úr básunum eða við ítrekaðar stungur með breiðri holnál við leit að hálsbláæð.
Blóðmerahald er hvergi stundað í Evrópu, nema á Íslandi. Þrátt fyrir formlega áminningu EFTA (ESA) hefur Ísland haldið áfram að taka blóð úr hryssum. Við væntanlega endurskoðun í október, þegar núverandi leyfi líftæknifyrirtækisins Ísteka rennur út, ætti fagráð um velferð dýra að hafa í huga að notkun dýra til lyfjaframleiðslu fellur undir tilskipun ESB 2010/63 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.
Af neðangreindum ástæðum brýtur blóðsöfnun til framleiðslu á PMSG bæði gegn reglugerð 460/2017 og tilskipun ESB 2010/63:
1. Framleiðsla á PMSG brýtur gegn meginreglunni um staðgöngu, fækkun og mildun (4. grein).
Tilskipun ESB 2010/63, sem og samsvarandi íslensk reglugerð 460/2017, byggjast á meginreglunni um staðgöngu, fækkun og mildun. Samkvæmt þessari meginreglu verða dýratilraunir, þegar mögulegt er, að vera skipt út fyrir aðrar aðferðir þar sem ekki eru notuð lifandi dýr. Hvað PMSG varðar þá eru til aðrar árangursríkar leiðir við að koma af stað og samstilla gangmál hjá búfé.
Í Þýskalandi eru til að mynda 36 kemísk hormón í boði fyrir mismunandi dýrategundir og mismunandi meðferðir. Samstilling á gangmáli er einnig möguleg með aðferðum án notkunar hormóna með ráðstöfunum í búfjárrækt, svo sem með hreyfingu, góðri næringu og birtu, gyltur sem eru að ganga hafðar í nálægð við hver aðra og nálægð við gölt. Slíkar aðferðir eru til dæmis notaðar í lífrænum landbúnaði þar sem kerfisbundin notkun frjósemishormóna er óheimil.
2. Framleiðsla á PMSG stenst ekki skaða- og ávinningsgreiningu (38. grein tilskipunar ESB 2010/63).
Mat á aðferð þar sem notuð eru lifandi dýr skal fela í sér skaða- og ávinningsgreiningu, til að meta hvort sá skaði sem dýrin verða fyrir er varðar þjáningar, sársauka og vanlíðan sé réttlætanlegur með væntanlegum árangri, að teknu tilliti til siðferðilegra sjónarmiða, og geti að lokum skilað ávinningi fyrir manneskjur, dýr eða umhverfi. Ávinningur er enginn fyrir þau dýr sem sprautuð eru með PMSG. Þvert á móti verða hestarnir sem notaðir eru til framleiðslu á PMSG ekki aðeins fyrir skaða, heldur einnig dýrin sem eru meðhöndluð með hormóninu.
PMSG er notað til að auka framleiðni og skilvirkni í iðnaðarbúskap. Það stuðlar að óeðlilegri æxlunartíðni hjá búfé og engin hvíld verður milli meðgangna, sem getur leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála og ótímabærrar slátrunar. PMSG veldur einnig ofuregglosi sem getur leitt til stærri gota hjá svínum en veikburðari afkvæmum.
Einnig er mögulegt að nota PMSG til að fela slæman aðbúnað eða heilsufarsvandamál dýra sem gerir svínabúum, þar sem vandamál eru viðvarandi, kleift að starfa með skilvirkum hætti.
Blóðtaka úr fylfullum hryssum til framleiðslu á PMSG er ekki samfélagslega viðurkennt. Nýlega söfnuðust 251.000 undirskriftir í undirskriftasöfnunum4 þar sem Ísland er hvatt til að afleggja blóðmerahald. Að auki má nefna framsæknustu löndin sem hafa snúið frá þessari aðferð: í Sviss hafa bændasamtök sem eru fulltrúar rúmlega 50.000 bænda bannað notkun PMSG fyrir allar dýrategundir; Svíþjóð aflagði notkun PMSG í áföngum árið 2006 með það að markmiði að ná góðri frjósemi hjá svínum með ráðstöfunum í búfjárrækt; og PMSG er ekki í notkun í Finnlandi, en markaðsleyfi fyrir PMSG vörur hefur verið afturkallað.
Að lokum þá er blóðtaka úr fylfullum hryssum sem framkvæmd er í atvinnuskyni ekki nauðsynleg og veldur bæði hestum og búfé skaða, sem brýtur gegn reglum EES. Því ættu stjórnvöld í aðildarríkjum EFTA ekki að veita heimild fyrir slíkri aðferð.
Við hvetjum íslensk stjórnvöld eindregið til að hafna öllum umsóknum um blóðtöku úr fylfullum hryssum undir reglugerð um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.
Við erum tilbúin að veita ykkur frekari upplýsingar ef óskað er.
Virðingarfyllst
Stephanie Ghislain
Sabrina Gurtner
Linda Karen Gunnarsdóttir
Eurogroup for Animals Animal Welfare Foundation
Dýraverndarsamband Íslands
Komment