
Isaac Hayes III, sonur tónlistarmannsins og leikarans Isaac Hayes, hefur stigið fram og varpað ljósi á áralangar vangaveltur um brotthvarf föður hans úr hinum geysivinsælu teiknimyndaseríu South Park. Í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Facebook segir Hayes yngri að faðir hans hafi ekki sjálfur ákveðið að hætta sem rödd persónunnar Chef, heldur hafi það verið gert að undirlagi annarra innan Vísindakirkjunnar.
„Faðir minn hætti ekki í South Park. Vísindakirkjan gerði það,“ skrifar Hayes III. Hann segir að eftir að umdeildur þáttur þáttarins, “Trapped in the Closet“, fór í loftið árið 2005, þar sem meðal annars var gert grín að Vísindakirkjunni og Tom Cruise, hafi faðir hans fengið heilablóðfall sem gerði hann ófæran um að tala eða taka ákvarðanir á eigin spýtur.
„Hann var ekki í neinu ástandi til að segja neinu upp. Sannleikurinn er sá að einhver innan Vísindakirkjunnar tók þá ákvörðun og hætti í þáttunum fyrir hann,“ segir Hayes III.
Isaac Hayes, sem lést árið 2008, hafði verið rödd persónunnar Chef frá upphafi þáttanna árið 1997 og naut mikilla vinsælda hjá áhorfendum. Samkvæmt Hayes III naut faðir hans þess mjög að vinna að þáttunum.

„Hann elskaði að vera rödd Chef. Hann elskaði persónuna. Hann elskaði að tengjast aðdáendum. Hann grínaðist við fólk sem kannaðist við röddina hans og naut þess virkilega að vera hluti af þáttunum.“
Árið 2006 bárust fréttir þess efnis að Hayes hefði hætt í þáttunum vegna þess að honum hafi fundist þeir „gera grín að trúarbrögðum annarra“, en sonur hans segir þá skýringu vera tilbúning.
„Sagan um að hann hafi hætt vegna þess að hann móðgaðist yfir háðsádeilunni er ekki sönn. Það var yfirvarp sem aðrir bjuggu til. Faðir minn fékk aldrei að tala fyrir sjálfan sig, því heilsa hans svipti hann því tækifæri.“
Hayes III segir það vera mikilvægt að leiðrétta þessa sögu nú, fyrir aðdáendur föður hans og persónunnar Chef:
„Hann yfirgaf South Park ekki af fúsum og frjálsum vilja. Hann var neyddur út – af veikindum og af fólki sem hafði ekki hagsmuni hans í huga. Þetta er sannleikurinn um hvað raunverulega gerðist.“
Komment