
Illugi Jökulsson er heimspekilegur í nýjust Facebook-færslu sinni. Þar rifjar hann upp æskuminningu þegar hann var ekki síður heimspekilegur sjö ára patti.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson segir frá pælingu í nýrri Facebook-færslu sem hann fékk í höfuðið aðeins sjö ára gamall á dimmu vetrarkvöldi. Þá kveikti brakið í jarðveginum þá hugmynd í kollinum á Illugi litla að í hverju sandkorni væri heill alheimur.
„Þegar ég var sjö ára velti ég mjög fyrir mér eðli alheimsins eins og maður gerir þegar maður er sjö ára. Ég man að einu sinni var ég á vappi á niðdimmu vetrarkvöldi yfir kartöflugarð hinum megin við Lindarbraut 10 og í frostinu heyrði ég braka í sendnum jarðveginum þegar ég steig niður fæti. Þá fannst mér liggja í augum uppi að innan í hverju sandkorni væri heill alheimur alveg eins og okkar og sjálfur væri ég staddur í heimi sem væri ekki annað en sandkorn sem einhver annar sjö strákur væri að troða undir fæti akkúrat núna.“
Að lokum segir Illugi að mögulega hafi hann hitt naglann á höfuðið sem barn:
„Miðað við nýjustu rannsóknir í eðlis- og stjörnufræðum, að því marki sem ég skil þær, þá sýnist mér að ég hafi þá verið mjög á réttri leið.“
Komment