
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona segir íslenska þjóð ekki lengur sjálfstæða, í nýrri Facebook-færslu.
Leikkonan ástsæla skrifaði Facebook-færslu í gær sem vakið hefur athygli en færslunni hefur verið deilt 10 sinnum og um 140 manns hefur líkað við hana. Í færslunni talar hún um þjóðarmorðið á Gaza og að Alþingi þurfi að banna tæknimál.
„Alþingi verður að banna tæknimál. Þjóðarmorð kallar þingmaður manngerðar hörmungar. Þetta er tæknimál. Manni dettur helst í hug slæmt borgarskipulag, olíuleki eða laxeldisruglið á Íslandi. Manngerðar hörmungar. Athygli beint að afleiðingunum en ábyrgð falin, gerð almenn.“
Segist Steinunn Ólína ætla að melta þetta en spyr hvað hafi breyst síðan Ísland lýsti fyrst þjóða yfir stuðningi við Palestínu.
„Ég þarf aðeins að hugsa um þetta. En það er augljóst að þarf að banna tæknimál og endurheimta mælt mál. Eða við verðum bara að biðja Alþingismenn að hætta bara að tala og gera eitthvað rétt bara einu sinni. Við vorum fyrst þjóða að standa með frjálsri Palestínu. Hvað hefur breyst? Höfum við breyst? Þá skulum við horfast í augu við það!“
Að lokum segir Steinunn Ólína að Íslendingar hafi misst sjálfstæði sitt.
„Að við þorum ekki lengur frjáls að standa með þjóðinni sem ENN berst fyrir sjálfstæði sínu. Hvað er langt síðan við Íslendingar fengum sjálfstæði? Hvað er að okkur? Það sem er að okkur er það að við erum ekki lengur sjálfstæð þjóð. Við skulum horfast í augu við það. Hverjum erum við að hlýða? Svona er það á bragðið, ófrelsið.“
Komment