Popúlískur forsætisráðherra Ungverjalands, Victor Orban, sem grafið hefur undan lýðræði í landinu á síðustu árum, hefur uppi stór orð um viðskiptasamning Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem handsalaður var um helgina í Skotlandi, þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti dvelur við golfiðkun.
Orban sagði samkomulagið „verra“ en samninginn sem Bretland hafi gert.
„Donald Trump gerði ekki samkomulag við Ursulu von der Leyen, heldur át Donald Trump Ursulu von der Leyen í morgunmat,“ sagði Orban í beinni útsendingu á Facebook sem talsmaður flokks hans stóð fyrir.

Með samkomulaginu undirgengst Evrópusambandið 15% tolla á allar vörur, með fáum undantekningum, og samþykkir um leið að skuldbinda sig til að kaupa orku frá Bandaríkjunum.
Sem hluti af samkomulaginu sagði Trump að Evrópusambandið, með 27 aðildarríkjum, hefði samþykkt að kaupa „orku fyrir 750 milljarða dollara“ frá Bandaríkjunum, auk þess að fjárfesta fyrir 600 milljarða dollara til viðbótar.
Von der Leyen sagði að þessi „umfangsmiklu“ kaup á fljótandi jarðgasi, olíu og kjarnorkuelni myndu eiga sér stað á þremur árum sem hluti af áætlun ESB um að draga úr orkunotkun frá Rússlandi.
Sem samningamaður fyrir hönd allra 27 ríkja ESB hafði von der Leyen lagt mikið á sig til að bjarga viðskiptasambandi sem er metið á 1,9 billjón dollara á ári þegar kemur að vöru- og þjónustuviðskiptum.
„Þetta er gott samkomulag,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar við blaðamenn. „Það mun færa stöðugleika. Það mun færa fyrirsjáanleika. Það er afar mikilvægt fyrir fyrirtækin okkar beggja vegna Atlantshafsins,“ bætti hún við.
Hún sagði að tvíhliða undanþágur frá tollum hefðu verið samþykktar fyrir fjölda „strategískra vara“, einkum flugvélar, ákveðin efni, sumar landbúnaðarafurðir og mikilvæg hráefni.
Von der Leyen sagði að ESB vonaði enn að ná frekari svokölluðum „núll á móti núlli“ samningum, einkum varðandi áfengi, sem hún sagðist vona að myndi „leysast“ á næstu dögum.
Trump sagði einnig að lönd ESB — sem hafa nýverið heitið auknum varnarmálakostnaði innan NATO — myndu kaupa „hergögn fyrir hundruð milljarða dollara.“
„Þetta er gott samkomulag fyrir alla. Þetta er líklega stærsta samkomulag sem nokkru sinni hefur verið gert í hvaða samhengi sem er,“ sagði Trump.
Aðalsamningamaður Evrópusambandsins varði samninginn sagði hann vera „besta samninginn sem við gátum fengið við mjög erfiðar aðstæður“.
Komment