
Síðustu daga hefur internetið legið á hliðinni vegna 10 sekúndna myndbands sem olli netstormi. Myndbandið sýnir atlot háttsetts stjórnanda og undirmanns hans í kossamyndavél á Coldplay tónleikum.
Upp úr skandalnum hafa sprottið upp fjölmargar vangaveltur, jörm (meme) og falsfréttir. Forstjóri tæknifyrirtækisins Astronomer, Andy Byron, sést þar halda utan um mannauðsstjóra fyrirtækisins, Kristin Cabot en þegar þau átta sig á að þau eru í mynd, verða þau mjög vandræðaleg og snúa sér undan í flæmingi. Ástæðan er sú að Byron er harðgiftur, tveggja barna faðir.
Myndbandið opnaði mikla samfélagsmiðlaumræðu um sambönd, valdastöður og peninga. En það hafði líka alvarlegri afleiðingar, eins og að Astronomer, gagnafyrirtæki sem nýlega varð frægt og er með aðsetur í Cincinnati, hóf innanhúsrannsókn á málinu.
Í miðjum fjölmiðlafárinu sprungu samfélagsmiðlar út í kenningum. Ein kona var ranglega nafngreind og skömmuð, falsaðri afsökunarbeiðni var dreift víða, og skopreikningur sem þóttist vera fréttamaður hjá CBS bætti olíu á eldinn.
Myndbandið náði milljónum áhorfa og netnotendur tóku að grafast fyrir um hverjir væru í því, og dreifðu persónuupplýsingum sem margar hverjar reyndust rangar eða tilbúningur.
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir sumt það sem hefur verið ranglega haldið fram, og hvað við vitum með vissu:
Röng auðkenning: Var konan Alyssa Stoddard?
Fullyrðing: Konan sem brosti vandræðalega við hliðinni á parinu, var sögð vera Alyssa Stoddard, nýráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Astronomer.
Raunveruleikinn: Rangt. Samkvæmt opinberri yfirlýsingu Astronomer og fjölmörgum staðfestum heimildum var Stoddard ekki viðstödd tónleikana. Konan í myndbandinu er enn óþekkt og Stoddard hefur verið ranglega bendluð við málið.
Fölsuð afsökunarbeiðni: Viðurkenndi Andy Byron eitthvað opinberlega?
Fullyrðing: Andy Byron átti að hafa sent frá sér tilfinningaþrungna afsökunarbeiðni til starfsmanna Astronomer, eiginkonu sinnar og Coldplay, með tilvitnunum í lagatexta og ábyrgðarjátningu.
Raunveruleikinn: Þetta er algerlega falsað. Uppruninn er skopreikningur á X (áður Twitter) undir nafninu „Peter Enis“, sem þóttist vera blaðamaður hjá CBS. Sá sem á reikninginn viðurkenndi síðar að þetta væri háð. Honum hefur nú verið lokað. Hvorki Byron né Astronomer hafa gefið út neina opinbera afsökun á staðfestum miðlum.
Skopfréttir: Var Coldplay sektað eða bannaði hljómsveitin kossamyndavélar?
Fullyrðing: Í jörmum (memes) og brandarapóstum var því haldið því fram að Coldplay hefði bannað kossamyndavélar á tónleikum sínum eða verið sektað vegna atviksins.
Raunveruleikinn: Hreinn brandari. Coldplay hefur ekki breytt neinu í reglum sínum, og engin opinber viðbrögð eða refsingar hafa beinst að hljómsveitinni eða framleiðsluteyminu. Chris Martin, söngvari Coldplay, gerði þó smá grín að málinu á tónleikunum sjálfum, en þar endaði þátttaka þeirra.
Fölsuð yfirlýsing fyrirtækisins: Deildi Astronomer afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum?
Fullyrðing: Skjáskot fóru á flug sem sýndu afsökunarbeiðnina birtast á opinberum reikningi Astronomer á X.
Raunveruleikinn: Rangt. Astronomer hefur aldrei birt neina afsökun á samfélagsmiðlum. Fyrstu opinberu viðbrögð fyrirtækisins voru þau að innri rannsókn væri hafin og að bæði starfsmennirnir sem komu við sögu hafi verið sendir í leyfi. Fyrir nokkrum dögum sagði Byron af sér sem forstjóri fyrirtækisins.
Falsað myndband af niðurbrotinni eiginkonu
TikTok-myndskeið birtist sem átti að sýna niðurbrotna eiginkonu Byrons, Megan Kerrigan Byron, þar sem hún fer yfir hið hræðilega mál.
Raunveruleikinn: Um er að ræða myndband sem að hluta til er gert með hjálp gervigreindar og því um uppspuna að ræða.
@8kuyajamz Andys Byron's wife responds to his infidelity at the music festival's coldplay concert.😢😥 #cttoOfvideo #andybyron #coldplay #coldplayconcert #foryoupageシforyou #TopFans ♬ original sound - #Trending_2025
Hvað vitum við með vissu?
- Kristin Cabot (mannauðsstjóri fyrirtækisins) og Andy Byron (forstjóri) hafa bæði verið send í leyfi frá Astronomer.
- Atvikið átti sér stað á Coldplay-tónleikum í Gillette Stadium í Foxborough, Massachusetts.
- Innri rannsókn er í gangi hjá fyrirtækinu.
- Hvorugt þeirra hefur gefið út opinbera yfirlýsingu.
- Konan sem sat við hlið þeirra í myndbandinu og virtist líða óþægilega þegar myndavélin beindist að þeim, hefur ekki verið auðkennd opinberlega.
Komment