
Manga-myndasaga um snákarómantík, nánir tvíburabræður og umhverfisverndarsinni eru dæmi um það sem hefur orðið undir lögunum um „óhefðbundin gildi“ í Rússlandi nútímans.
Rússnesk stjórnvöld halda áfram að herða aðgerðir gegn öllu sem þau telja tengjast LGBTQ+ lífi. Í nafni bannsins á svokölluðum „LGBT áróðri“ hafa dómstólar og lögregla farið ótrúlegar leiðir í að finna meint brot. Sjálfstæði fjölmiðillinn 7×7 tók saman nokkur dæmi sem sýna hversu langt yfirvöld ganga.
„Víkingaþorp“ í Kaliningrad sektað
Þann 22. september 2025 var sögusafnið Kaup í Kaliningrad, sem kynnt er sem „víkingaþorp“, sektað um 800 þúsund rúblur (um 1,1 milljón krónur) fyrir að brjóta gegn lögum um „LGBT áróður“.
Tilefnið var viðburður sem haldinn var í sumar af einkaaðila sem leigði svæðið. Þar hafði verið sett upp skopmyndabás merktur „BDSM“, sem varð grundvöllur sektarinnar. Þá hélt lögregla því fram að mynd sem sýndi tvær konur kyssast hefði verið tekin á svæðinu.
Stjórnendur Kaup sögðu að mótmæli þeirra um að þarna væri hvorki „áróður“ né neitt sem félli undir „óhefðbundin gildi“ hefðu verið hunsuð.
Ástarsaga stúlku og snáks
Ivan Kvast, rekstrarstjóri vefsins MangaLIB – stærstu rússneskumælandi útgáfuverslunar fyrir manga og teiknimyndasögur, var sektaður um 200 þúsund rúblur (292 þúsund krónur) fyrir að hýsa japönsku söguna The Great Snake’s Bride.
Dómstóllinn féllst á málflutning saksóknara um að rómans milli manns og goðsagnaveru teldist „óhefðbundinn“. Refsingar á hendur Kvast hafa nú numið meira en einni milljón rúbla. Sjálft MangaLIB hefur fengið samtals yfir 14 milljón rúblna sektir.
„Óvenju nánir“ tvíburabræður
Í Tatarstan voru tvíburabræður dæmdir til að greiða hvor um sig 100 þúsund rúblur (146.000 kr) fyrir að „auglýsa óhefðbundin kynferðisleg sambönd“.
Málið byggðist á bloggsíðu þeirra, sem hefur færri en 2.000 fylgjendur og inniheldur mestmegnis fyndin myndbönd, ferðalýsingar og líkamsræktarefni. Ekki er ljóst hvað nákvæmlega kveikti áhuga saksóknara en í dómsorði var sagt að þeir hefðu „auglýst óhefðbundið kynferðislegt samband milli tvíburabræðra“. Engin sérfræðigreining var lögð fram sem sönnun.
Umhverfisverndarsinni sektaður
Þann 15. júlí 2025 var Pavel Osipov, aðgerðasinni úr hreyfingunni Sterlitamak, Andaðu!, sektaður um 100 þúsund rúblur. Ástæða málsins var kvörtun frá konu tengdri bæjaryfirvöldum, sem benti á myndir úr „vistuðum færslum“ hans á VKontakte þar sem ungar konur voru að faðmast og kyssast.
Osipov fullyrti að hann hefði vistað myndirnar sem hluta af sönnunargögnum í öðru sakamáli. Hann hefur þrjú börn og sagði í yfirlýsingu að hann væri andvígur „LGBT fyrirbærinu“. Stuðningsmenn hans telja málið pólitískt og ætlað til að sverta nafn hans sem gagnrýnanda.
Tölurnar á bak við aðgerðirnar
Frá því að heildarbannið á „LGBT áróðri“ tók gildi í desember 2022 hefur fjöldi mála farið í gegn um dómstóla. Greining 7×7 á opinberum skjölum sýnir eftirfarandi:
- 405 mál bárust dómstólum, 372 leiddu til dómsúrlausnar.
- Í 162 málum voru lagðar sektir, í 16 tilvikum fengu sakborningar allt að 15 daga fangelsi.
- Fimm erlendum ríkisborgurum var vísað úr landi.
Málin hafa beinst að bæði einstaklingum og stórum fyrirtækjum, þar á meðal streymisveitum, bókaútgefendum og jafnvel börum. Sektir hafa einnig verið lagðar á fólk fyrir að vista meme-myndir (ísl. jarm-myndir) á samfélagsmiðlum eða fyrir samskipti á stefnumótaforritum.
Komment