
Innrás Rússa í Úkraínu hefur orðið að óvenjulega hættulegum tíma fyrir rússneska embættismenn og háttsetta stjórnendur í bæði opinberum og einkareknum olíu- og gasfyrirtækjum. Fjöldi háttsettra stjórnenda hjá risum eins og Gazprom, Lukoil og Transneft hefur látist, oft við dularfullar kringumstæður.
Sjá einnig: Rússneskir ólígarkar í útrýmingarhættu – Yfirferð
Þann 7. júlí 2025 bárust fregnir af því að samgönguráðherra Rússlands, Roman Starovoit, hefði svipt sig lífi í bíl sínum, nokkrum klukkustundum eftir að Vladímír Pútín forseti rak hann með forsetatilskipun. Með því bætist Starovoit á langan lista embættismanna og stjórnenda sem hafa látist með því sem yfirvöld hafa kallað sjálfsvíg.
Meduza tók saman helstu dauðsföllin sem tengjast þessum hópi frá upphafi innrásarinnar:
- Janúar 2022: Leonid Shulman, yfirmaður flutningadeildar Gazprom Invest, fannst látinn í baðkari sumarhúss síns í úthverfi Pétursborgar.
- Febrúar 2022: Alexander Tyulyakov, aðstoðarforstjóri öryggisdeildar Gazprom, fannst hengdur í bílskúr sínum í sömu borg.
- Apríl 2022: Vladislav Avaev, varaforseti Gazprombank, fannst skotinn til bana í íbúð sinni í Moskvu ásamt eiginkonu og dóttur.
- Apríl 2022: Sergey Protosenya, fyrrverandi stjórnandi hjá Novatek, fannst látinn í sumarbústað sínum á Spáni, ásamt eiginkonu og dóttur þeirra sem einnig höfðu verið myrtar.
- Maí 2022: Alexander Subbotin, fyrrum stjórnarmaður hjá Lukoil, fannst látinn í húsi í Mytishchi, fyrir utan Moskvu. Upphaflega var dauðsfallið rakið til bráðrar hjartabilunar.
- Júlí 2022: Yuri Voronov, stofnandi Astra-Shipping (undirverktaki fyrir Gazprom), fannst skotinn til bana í sundlaug við sumarhús sitt í Leníngrad-héraði.
- Ágúst 2022: Ravil Maganov, stjórnarformaður Lukoil, féll út um glugga á sjúkrahúsi í Moskvu þar sem hann var til meðferðar.
- Desember 2022: Oleg Zatsepin, framkvæmdastjóri Kogalymneftegaz (dótturfélags Lukoil í Khanty-Mansi), fannst látinn á skrifstofu sinni.
- Febrúar 2023: Vyacheslav Rovneyko, meðstofnandi Urals Energy og fyrrum viðskiptafélagi tengdasonar Boris Jeltsíns, fannst látinn á heimili sínu við Rublyovka, dýrasta hverfi Moskvu.
- Október 2023: Vladimir Nekrasov, stjórnarformaður Lukoil, lést af völdum bráðrar hjartabilunar.
- Mars 2024: Vitaly Robertus, varaforseti Lukoil, fannst látinn á skrifstofu sinni í Moskvu.
- Júlí 2025: Andrey Badalov, varaforseti Transneft, féll út um glugga í íbúð sinni við Rublyovskoye-hraðbraut í Moskvu.
- Júlí 2025: Roman Starovoit, sem nýverið hafði verið rekinn sem samgönguráðherra Rússlands, sagður hafa svipt sig lífi á bílastæði skammt frá höfuðborginni.
Komment