
Miklar deilur hafa ríkt í samfélaginu undanfarna mánuði vegna gjaldtöku sem sett hefur verið á mörgum vinsælum ferðamannastöðum Íslands. Innan ferðaþjónustunnar hafa gjöldin verið umdeild hjá ákveðnum hópi sem kallar þau græðgi.
Einn þeirra sem setur sig upp á móti slíku er Árni Tryggvason, sem hefur meðal annars unnið sem fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, en hann lýsir því yfir í færslu á Facebook að stöðva þurfi peningaplokkið.
„Nú þurfum við sem ferðumst um fallega landið okkar að fara að standa saman í að brjóta á bak aftur þessa gráðugu aðila sem reyna að féfletta okkur hvar sem við leggjum bílunum okkar,“ skrifar Árni um málið. „Nú í sumar hef ég skellt málningarlímbandi yfir númeraplöturnar rétt á meðan ég ek fram hjá myndavélunum.“

Árni viðurkennir að þetta sé á „gráu svæði“ lagalega séð en að gjaldheimtan sé ekki lögleg og því eigi hann og aðrir fullan rétt til að bregðast við. Með færslunni birtir hann mynd af númeraplötu með límbandi yfir og segist setja það á rétt áður en hann ekur inn á svæði sem krefjast gjaldskyldu og svo aftur þegar hann ekur í burtu. Hann segist ekki ennþá hafa fengið kröfu á heimabankann sinn, svo þetta virðist virka.
„Víða er þessi gjaldheimta nánast falin. T.d. kom ég að Brúarhlöðum um daginn en þar er ekkert sem tilkynnir þetta áður en ekið er inn á svæðið,“ skrifar hann. „Bara skilti sem blasir við þegar ekið er út af því. Höfum í huga að þarna er bílastæði sem kostað var af Vegagerðinni en ekki af þessum fégráðugu aðilum sem hugsanlega eiga landið undir því. Engin þjónusta er þarna en hugsanlega mætti réttlæta svona innheimtu ef svæðið væri vaktað og gestir hefðu aðgang að salernum, staðarhaldari hefði staðið allan straum af kostnaði við vegagerð og bílastæði o.fl.“
Komment