
Óprúttinn aðili eða aðilar gerðu sér lítið fyrir á dögunum og stálu heilli umferð af rándýrum dekkjumog felgum undan Toyota Land Cruiser sem stóð á Stálhellu 2 í Hafnarfirði. Eigandinn bílsins, Þórður Ásgeirsson skrifaði færslu á Facebook þar sem hann bað fólk um að láta sig vita ef það hefði einhverjar upplýsingar um málið.
Um er að ræða nánast ónotuð Dick Cepek Extreme Country-dekk og felgur að andvirði um 700.000 krónur. Þá voru bremsudiskarnir undir bílnum eyðilagðir við stuldinn. Í færslunni segir Þórður að myndavélar séu á svæðinu og það verði farið í gegnum þær.

Mannlíf heyrði í Þórði og spurði hann út í málið. Aðspurður um fjárhagslegt tap svaraði hann:
„Þessi dekkja og felgu pakki myndi kosta mig núna um 700.000 en það er búið að eyðileggja bremsudiskanna undir bílnum með þessu og ég á eftir að klára að skoða hjólabúnaðinn betur.“
En það er ekki aðeins um að ræða fjárhagslegt tjón því Þórður hefur eytt miklu tíma í að koma bílnum í gott stand.
„Ég er búinn að vera að gera upp vélina í honum og á bara eftir að ganga frá vélarafmagninu, þá hefði hann verið kominn í gang en ég er búinn að eyða miklum tíma og pening í þetta og maður er nánast að gefast upp eftir þetta vesen.“

Þórður segir að frá því að hann setti færsluna á Facebook í gær, hafi fjölmargir deilt henni og hafa þó nokkrir aðilar haft samband og bent á einn ákveðinn mann, í tengslum við stuldinn.
En það hafa líka fleiri haft samband og sýnt góðmennsku í verki.
„Það hafði líka maður samband við mig í gær og lét mig fá gamlan gang af orginal felgum með lélegum dekkjum til að ég gæti fært bílinn og hann gaf mér þær svo hafði partasalan í Mosfellsbæ sem sérhæfir sig í Toyota samband og bauðst til að lána mér dekk og felgur og ég er mjög þakklátur fyrir hvað það eru margir góðir þarna úti.“
Að lokum spurði Mannlíf hvort lögreglan hefði verið kölluð til vegna málsins. Játaði Þórður því en sagði lítið sem lögreglan gæti gert í þessu.
Komment