
Kótelettan, grill- og tónlistarhátíð á Selfossi, var haldin um helgina í 15. sinn. Tugir tónlistaratriða komu fram á þremur dögum á stóra sviði tónleikahátíðarinnar en atriðin voru nokkuð einhæf þegar kemur að kynjaskiptingunni. Af 38 atriðum voru aðeins fjögur atriði með konum. Þar af voru Bríet og Klara Einars einu konurnar sem ráðnar voru sem einstaklingsatriði á aðalhátíðinni. Tvær hljómsveitir voru með konur í hópnum en það voru Todmobile og Út í Hött. Báðar hljómsveitirnar spiluðu á fimmtudeginum á upphitunartónleikum sem var frítt inn á og ekki hluti af aðal tónleikahátíðinni. Á laugardaginn var engin kona á dagskránni.
Það er ekki nýtt á nálinni að útihátíðir Íslands séu gagnrýndar fyrir að hafa nánast alfarið karlkyns listamenn á sviðum sínum. Árið 2016 vakti Unnsteinn Manúel athygli á því að eina konan sem átti að spila á Þjóðhátíð það árið var hluti af hljómsveitinni Retro Stefson. Í kjölfarið var tveimur konum bætt við dagskránna. Stjórn KÍTÓNS - félag kvenna í tónlist lýsti vonbrigðum á dagskrá Kótelettunnar í ár fyrr í mánuðinum.
„Með því að bjóða ekki tónlistarkonum á svið skapast vítahringur þar sem skortur á sýnileika samkynja fyrirmynda veldur á endanum skorti á tónlistarkonum. Samkynja fyrirmyndir hafa sterkari áhrif og skiptir það því gríðarlegu máli að ungar upprennandi tónlistarkonur geti speglað sig í þeim sem þær sjá koma fram uppi á sviði,“ skrifaði stjórn KÍTÓNS í yfirlýsingu á Facebook.

Kótelettan er vinsæl hátíð og stór nöfn komu á svið svo sem Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, XXX Rottweiler hundar, Helgi Björns og Páll Óskar. Einnig mátti sjá mörg atriði með ungu tónlistarfólki sem ekki eru landsþekkt sem hefði verið tilvalið tækifæri á að ráða minna þekktar tónlistarkonur.
Mannlíf fékk engin svör frá skipuleggjendum hátíðarinnar þegar haft var samband.
Komment