Prófessor í félagsfræði er á því að stjórnarandstaðan hafi ekki virt þingræðið með sínu málþófi í tengslum við frumvarp er varðar veiðigjald
Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði er á þeirri skoðun að stjórnarandstaðan hafi ekki virt þingræðið með sínu málþófi í tengslum við frumvarp er varðar veiðigjald.
Stefán fullyrðir að minnihlutinn hafi heimtað „þingloka-samning um nýtt og gjörbreytt veiðigjaldafrumvarp, undir hótun um málþóf til haustsins, og sögðu svo ríkisstjórnina ekki kunna að gera þinglokasamning!“

Stefán segir einfaldlega að Þetta hafi verið „fráleitur málflutningur“ því ríkisstjórnir í þingræðisríkjum gera ekki „samninga um grundvallarbreytingar á stefnumálum sínum, sem njóta mikils stuðnings hjá kjósenda, nema sitjandi ríkisstjórn hafi ekki meirihluta fyrir málum sínum á þingi“ en sú hafi aldeilis ekki verið raunin núna því „stjórn Kristrúnar Frostadóttur hafði góðan meirihluta á þingi.“
Stefán segir að þegar staðan er þannig eigi „stjórnarandstaðan ekki að hafa neina samningsstöðu, nema um aukaatriði“ og hann nefnir að í ljósi þessa megi „gagnrýna hversu langt var gengið til móts við stjórnarandstöðuna, með lækkun á gjaldtökunni og með töfum á fullri framkvæmd hinnar nýju gjaldtöku.“
Að endingu ljær Stefán máls á þeirri skoðun sinni að meirihlutinn á þingi þurfi í ljósi nýliðinna atburða „að búa sig undir að þurfa að beita 71. greininni oftar í framhaldinu. Viðhorf stjórnarandstöðuflokkanna eru þannig. Þeim finnst að þau eigi að ráða ferðinni þó þjóðin hafi hafnað þeim.“
Komment