
Ári eftir að verslunin Prís opnaði og bauð lægsta verð á matvöru hefur verslunin haldið stöðu sinni sem mesta lágverðsverslun Íslands. Prís er sem stendur „um 6% ódýrara en Bónus og Krónan að meðaltali og 10% ódýrara en Nettó“, samkvæmt verðkönnun Alþýðusambands Íslands.
Verðmunur getur verið mun meiri en 6% í einstaka vörutegundum. Þannig eru Ömmu flatkökur 58% ódýrari í Prís heldur en í Krónunni og kosta 174 krónur þar miðað við 275 krónur í síðarnefndu versluninni.
Við opnun Prís voru mörg dæmi um verðbreytingar hjá helstu samkeppnisaðilum strax á fyrstu dögum, segir í tilkynningu ASÍ. Í Krónunni lækkaði verð á þeim vörum sem ekki fundust í Bónus þegar Prís mætti til leiks.
Verðlag á matvöru hækkaði um 0,1% milli júní og júlí og verðathuganir fyrripart ágúst benda til þess að verðlag á dagvöru hafi að mestu staðið í stað milli júlí og ágúst. Er um nokkurn viðsnúning að ræða frá tímabilinu febrúar til júní þegar meðalhækkunin nam 0,6%.
Ef aðeins eru skoðaðar matar- og drykkjarvörur var hækkunin 0,3% milli júní og júlí. Vörur frá Nóa Síríus hækkuðu áfram. Til dæmis hækkaði 240 gramma poki af Nóa kroppi um 13% í Bónus milli júní og júlí. Nóa súkkulaðiperlur hækkuðu um 17% í Hagkaup, hvítir og konsúm súkkulaðidropar hækkuðu um 12% í Krónunni og um 13% í Nettó og svo mætti lengi telja.
Komment