
Eftir að hafa þurrkast út í þingkosningunum í nóvember eru Píratar nú aftur komnir á blað í könnunum. Ný skoðanakönnun Maskínu sýnir Pírata með 5% fylgi, á meðan hvorki Sósíalistaflokkurinn né Vinstri græn mælast inni á þingi. Píratar voru líka ofar Vinstri grænum og Sósíalistaflokki Íslands í þjóðarpúlsi Gallups í lok júní.
Athygli vekur að Píratar njóta meira fylgis hjá konum en körlum, eða 6,6% hjá konum en 3,5% hjá körlum. Það kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess að sjö af átta meðlimum framkvæmdastjórnar eru konur. Auk þess ná Píratar betur til yngra fólks en eldra og eru með 7,6% fylgi hjá 30 til 39 ára.
Píratar sýna ágæta spretti þessa dagana, en Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson eru dugleg við greinaskrif og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lætur heyra í sér á Facebook, svo eitthvað sé nefnt.
Samhliða uppgangi þjóðernishyggju, og pólitískri hernaðaráætlun Samfylkingar og Viðreisnar um að halda sig að mestu til hlés, leggja Píratar áherslu á fjölmenningu og frjálslyndi. Auk þess heldur Halldóra úti Samtökum um mannvæna tækni, sem ætlað er að gæta hagsmuna mannkynsins í örum tæknibreytingum. Hún hefur meðal annars lagt til tæknilega innviði sem eru á forræði Íslendinga eða Evrópubúa, frekar en bandarískra stórfyrirtækja. Að auki mælir hún fyrir lögleiðingu eða refsileysi fíkniefnaneyslu.
Píratar eru síðan í borgarstjórn í Reykjavík. Þar er Dóra Björt Guðjónsdóttir óhrædd við að stökkva til varnar í hverju erfiðu málinu á fætur öðru, nú síðast valdi hún að standa á prinsippinu í umræðu um þéttingu byggðar, sem þriðjungur Reykvíkinga styður.
Líklegt er að Dóra Björt, ásamt Alexöndru Briem, Sigurbjörgu Erlu Egilsdóttur í Kópavogi og Álfheiði Eymarsdóttur í Árborg, fái tækifæri til að halda Pírötum á korti íslenskra stjórnmála í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári.
Komment