
Gvatemala framseldi á föstudaginn meintan leiðtoga smyglhrings sem Bandaríkin vildu fá afhentan vegna dauða 53 farandverkamanna í kæfandi heitum flutningabíl árið 2022.
Rigoberto Miranda, 48 ára gamall Gvatemali sem var handtekinn í fyrra nálægt landamærum Mið-Ameríkuríkisins við Mexíkó, er sakaður um að leiða gengi sem kallast „Los Orozcos“.
Hann var fluttur með flugi frá Gvatemalaborg til Bandaríkjanna, sagði Sergio Vela, yfirmaður fangelsismálastofnunar landsins, við blaðamenn.
Bandaríska sendiráðið í Gvatemala sagði á samfélagsmiðlum að Miranda myndi „svara til saka fyrir smygl á fólki“.
Bandarísk yfirvöld hafa áður handtekið nokkra aðra einstaklinga fyrir meinta aðild að harmleiknum í Texas.
Samkvæmt bandarískum yfirvöldum virkaði loftræsting flutningabílsins ekki sem skyldi og hitastigið hækkaði inni í bílnum á meðan hann ók norður á bóginn.
Fjörutíu og átta manns voru látnir þegar flutningabíllinn kom til San Antonio og fimm til viðbótar létust síðar á sjúkrahúsi.
Rigoberto Miranda er ákærður fyrir samsæri um að flytja útlendinga til Bandaríkjanna sem leiddi til dauða og önnur brot, og gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Samkvæmt ákærunni rukkaði smyglararnir 12.000 til 15.000 dollara á mann, eða hátt í tvær milljónir króna, til að flytja farandverkamennina, sem voru flestir frá Mexíkó, Gvatemala og Hondúras, inn í Bandaríkin.
Komment