
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru 104 mál bókuð í kerfum hennar frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Alls gista fjórir í fangageymslu lögreglunnar eftir nóttina en hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um þau verkefni sem lögreglan réðist í á tímabilinu.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Austur- og Vesturbæ Reykjavíkur, miðborginni og á Seltjarnarnesi, stöðvaði átta ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Voru flestir þeirra lausir eftir sýnatöku en einn þeirra ákvað þó að reyna að stinga lögregluna af við ölvunareftirlitið. Ekki tókst honum betur en svo að hann missti stjórn á bifreið sinni og hafnaði utan í vegriði. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Sama lögregla fór á 14 skemmtistaði og kannaði réttindi dyravarða, aldur gesta á stöðunum og annað sem þarf að vera í lagi. Einnum þeirra var lokað og nokkri áminntir.
Þá var einn aðili handtekinn þar sem hann hafði haft í hótunum á samfélagsmiðlum og var vistaður í fangageymslu á meðan lögreglan rannsakar málið.
Hálka myndaðist í nótt vegna snjókomu og urðu þrjú umferðarslys vegna þess og hvetur lögreglan ökumenn til þess að fara varlega, nú þegar aðstæður eru að breytast á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi stöðvaði þrjá ökumenn vegna þess að þeir voru að keyra of hratt. Voru þeir á 116-121 km/klst þar sem hámarkshraði var 80 km/klst.

Komment