
Breski aðgerðarsinninn Tommy Robinson, sem skipulagði öfgahægrimótmælagöngu í London fyrr á þessu ári, var í dag sýknaður af ákæru um að hafa neitað að gefa lögreglu upp PIN-númer síma síns árið 2024.
Dómarinn Sam Goozee úrskurðaði að hinn 42 ára gamli Robinson, sem heitir réttu nafni Stephen Yaxley-Lennon, væri ekki sekur um brot á bresku hryðjuverkalögunum.
Robinson var stöðvaður í suðausturhluta Englands, í höfninni í Folkestone, þar sem hann ók silfurgráum Bentley sem ekki var skráður á hans nafn. Í bílnum fundust um það bil 13.000 pund ásamt rúmlega 1.700 evrum í reiðufé.
Hann sagði lögreglu að hann væri á leið til Benidorm á Spáni um Ermarsundsgöngin, en neitaði að segja lögreglu PIN-númer síma síns þar sem hann sagðist hafa í símanum myndefni sem tengdist blaðamennsku hans.
Dómarinn sagði einnig að hann væri ekki sannfærður um að aðgerðir lögreglu hefðu verið „í samræmi við lögbundinn tilgang“ þess ákvæðis sem var notað við ákæru og handtöku Robinson.
Robinson yfirgaf réttarsalinn við fagnaðarlæti stuðningsmanna sinna í áheyrendasalnum.
Fyrir utan dómshúsið þakkaði hann á ný bandaríska tæknifjárfestinum Elon Musk, sem hann hafði áður sagt að hefði greitt lögfræðikostnað hans.
Robinson er orðinn sjálfskipaður talsmaður andstæðinga innflytjanda og dró um 150.000 manns út á götur London í september til að taka þátt í einni stærstu hægri öfgamótmælum í sögu Bretlands, þar sem Elon Musk flutti einnig ræðu.
Hann er fyrrverandi fótboltabulla, sem stofnaði hægri öfgasamtökin English Defence League árið 2009, og hefur ítrekað verið dæmdur fyrir lögbrot.
Robinson var aðeins nýkominn úr fangelsi eftir að hafa setið inni í sjö mánuði fyrir að brjóta af sér.
Komment