
Nýjar tölur Hagstofunnar um fæðingartíðni eru stórtíðindi fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar. Tölurnar sýna að fæðingartíðni er fallin niður í 1,56 börn á hverja konu. Til þess að viðhalda fólksfjöldanum þarf 2,1 barn á hverja konu.
Fæðingartíðni hefur verið ósjálfbær á Íslandi frá árinu 2012, eins og kemur fram í umfjöllun Hagstofunnar. „Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjósemi kvenna búsettum á Íslandi 1,56 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2023 var frjósemi 1,59 en það er næst minnsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 hér á landi síðan árið 2012 þegar hún var 2,1.“
Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi árið 2024 var 4.311 sem er lítilsháttar fækkun frá árinu 2023 þegar 4.315 börn fæddust. Alls fæddust 2.224 drengir og 2.087 stúlkur en það jafngildir 1.066 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.
Frjósemi er enn minni á sumum Norðurlöndunum, ef frá er talið Grænland og Færeyjar.
Á síðasta ári var fjöldi lifandi fæddra barna á hverja konu rúmlega 1,4 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en í Finnlandi var hún komin niður í 1,26 árið 2023. Í Færeyjum og á Grænlandi var frjósemin 1,86 og 1,78 árið 2023 en hún hefur minnkað hratt síðustu ár. Til dæmis var frjósemi í Færeyjum 2,33 árið 2021 og á Grænlandi 2,12 árið 2020, segir í greiningu Hagstofunnar.
Komment