
Nítján ára ferðamaður sem leitað var að í Öræfum síðastliðið föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags fannst látinn. Þetta staðfestir lögreglan á Suðurlandi í tilkynningu.
Aðstoðarbeiðni barst lögreglu frá erlendum ferðamönnum um klukkan tíu að kvöldi föstudags. Þeir höfðu þá áhyggjur af samferðamanni sínum sem hafði farið einn í göngu við Svínafell en ekki skilað sér til baka á eðlilegum tíma.
Landhelgisgæslan sendi þyrlu á vettvang og björgunarsveit í Öræfum hóf leit í erfiðu landslagi. Maðurinn fannst skömmu síðar, en þá hafði hann þegar látist. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitarmenn fluttu hinn látna af vettvangi.
Lögreglan rannsakar nú atvikið, en ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að um slys hafi verið að ræða.
Komment