
Góðgerðardagur Hagaskóla sem haldinn var í maí gekk vel en nemendur skólans náðu að safna 3,6 milljónum króna til að gefa til góðgerðarmála.
Mun Kvennaathvarfið fá 1,8 milljónir og ungmennahús í Afganistan fær sömu upphæð. Verður peningurinn til Kvennaathvarfsins notaður til að bæta aðstöðu fyrir unglinga í nýju húsnæði meðan ungmennahúsið í Afganistan mun veita ungu fólki fjölþætta aðstoð.
Meðal þess sem nemendur stóðu fyrir var veitingasala, happadrætti, andlitsmálning, draugahús, reif, tónlistaratriði, leikir og jafnvel hársnyrting. Í salnum var einnig kaffihús þar sem gestir gátu tyllt sér niður og notið lifandi tónlistar.
Nemendur höfðu sjálfir skipulagt viðburðinn frá grunni, útvegað allan efnivið og sinnt framkvæmdinni af mikilli elju að sögn Reykjavíkurborgar. Skólastjóri Hagaskóla, Ómar Örn Magnússon, sagði í stuttu ávarpi að þó að fjárhæðin sem safnaðist væri mikilvæg væri meginmarkmið dagsins að nemendur upplifi hversu áhrifaríkt það er að láta gott af sér leiða og að góðverk geti skipt sköpum í lífi annarra.

Komment