
Mótmæli Félagsins Ísland-Palestína fyrir utan utanríkisráðuneytið klukkan 14:00 í dag, voru nokkuð fjölmenn og kraftmikil en skugga bar þó yfir þau þegar einn mótmælendanna skvetti rauðri málningu yfir blaðaljósmyndara Morgunblaðsins, Eyþór Árnason.

Um 200 mótmælendur voru saman komnir fyrir framan utanríkisráðuneytið klukkan 14:00 í dag til þess að mótmæla þjóðarmorðinu á Gaza, hungursneyðinni sem þar blasir nú við af mannavöldum og aðgerðarleysi stjórnvalda á Íslandi gagnvart Ísrael. Mótmælin voru kröftug en fjölmargir notuðu potta og pönnur til að skapa sem mestan hávaða. Þá var rauðri málningu skvett á gangstéttina fyrir framan ráðuneytið.

Ungur maður, sem hafði tekið virkan þátt í mótmælunum, gerði sér síðan lítið fyrir og skvetti rauðri málningu yfir Eyþór Árnason, ljósmyndara Morgunblaðsins. Að sögn Eyþórs, sem Mannlíf ræddi við, öskraði maðurinn ókvæðisorðum að honum og virtist vita að hann væri að vinna fyrir Morgunblaðið. Eftir ódæðið hljóp maðurinn á brott.
„Þetta var einhver strákur sem targetaði mig,“ segir Eyþór í samtali við Mannlíf. „Hann hrópaði Morgunblaðið eitthvað,“ hélt Eyþór áfram.
Að sögn Eyþórs komu meðlimir Félagsins Ísland-Palestína að máli við hann eftir atvikið og voru miður sín yfir þessu. „Þau komu og töluðu við mig og báðu mig innilegrar afsökunar og sögðu að þetta væri ekki það sem þau stæðu fyrir og hefði aldrei átt að gerast.“

Eyþór segist heppinn að ganga með gleraugu því málningin hefði léttilega getað farið í augun á honum. „Ég er nú sem betur fer með gleraugu sko, en þetta fór alveg þvert yfir gleraugun, þannig að ef ég hefði ekki verið með þau hefðu þetta vissulega getað farið í augun á mér.“
Einhver fjárhagsskaði varð af þessu athæfi að sögn Eyþórs en hann hefur ekki ákveðið sig hvort hann muni kæra viðkomandi. „Það er allt í málningu,“ segir hann aðspurður um græjurnar og er hann er spurður hvort einhver fjárhagslegur skaði hafi orðið segir hann „Já, einhver“.
Komment