
Félagið Ísland–Palestína boðar til mótmæla á Austurvelli í dag klukkan 14:00 vegna opinberrar heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og vegna aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda í garð ástandsins í Gaza.
Von der Leyen kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda og mun meðal annars funda með forsætis- og utanríkisráðherra auk þess sem fyrirhuguð er heimsókn hennar á Þingvelli. Í tilkynningu félagsins kemur fram að það telji heimsóknina óviðunandi í ljósi þess að Ursula von der Leyen hafi í starfi sínu veitt Ísrael ítrekaðan stuðning og komið í veg fyrir að Evrópusambandið beiti refsiaðgerðum gegn Ísrael vegna aðgerða þess í Palestínu.
„Íslensk stjórnvöld eiga að kalla eftir því að Ursula verði send til dómstóla í Haag en ekki bjóða henni í skoðunarferð til Þingvalla!,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Félagið gagnrýnir einnig íslensk stjórnvöld harðlega fyrir að hafa, að þeirra mati, sýnt fullkomið aðgerðaleysi gagnvart því sem þau kalla þjóðarmorð Ísraels á Gaza. Mótmælin eru skipulögð samhliða lokum Alþingis en félagið bendir á að þingið hafi ekki gripið til neinna raunverulegra aðgerða í málinu.
Komment