Ekki hafa neinar ákvarðanir verið teknar hvort áhorfandi sem hljóp inn á Laugardalsvöll eftir leik Íslands gegn Frakklandi, sem fór fram fyrr í október, verði kærður til lögreglu.
Þetta staðfesti Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Mannlíf en áhorfandinn var klæddur íslenskum landsliðsbúningi. Framkvæmdastjórinn sagði tveimur dögum eftir leikinn að áhorfandinn yrði mögulega kærður fyrir atvikið.
„Þetta er bara því miður eitthvað sem gerist af og til í knattspyrnuheiminum, ekki bara á Íslandi, og þá sérstaklega í leikjum þar sem eru stórstjörnur að spila,“ sagði Eysteinn um málið.
„KSÍ eins og önnur knattspyrnusambönd og knattspyrnufélög gerir ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta gerist, en eins og fólk hefur eflaust séð í myndböndum frá leikjum annars staðar í heiminum, þá sleppur stundum einhver í gegn.“
Eysteinn segir að KSÍ geti átt von á hárri sekt frá FIFA og UEFA vegna málsins.


Komment