
Stórleikarinn Michael Douglas lét til sín taka á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi þar sem hann heiðraði 50 ára afmæli kvikmyndarinnar One Flew Over the Cuckoo’s Nest. Þar nýtti hann tækifærið til að vara við stöðu lýðræðis, bæði í Bandaríkjunum og á heimsvísu.
„Lýðræði er dýrmætt og viðkvæmt og það þarf stöðugt að verja það,“ sagði Douglas og bætti við að Bandaríkin væru þessa dagana að „daðra við einræði, líkt og fleiri vestrænar lýðræðisþjóðir“.
Douglas kom einnig inn á persónuleg málefni og sagði meðal annars frá baráttu sinni við hálskrabbamein. Hann greindi frá því að hann hafi verið greindur með stig 4 krabbamein og hefði þurft geislameðferð sem heppnaðist, en aðgerðir hefðu getað þýtt að hann missti málið og hluta af kjálkanum. „Það hefði takmarkað mig sem leikara, en ég átti í raun ekki margar leiðir,“ sagði hann.
Douglas, sem er orðinn 80 ára, sagði að hann hefði hætt störfum árið 2022 og hafi ekki mikinn áhuga á að snúa aftur. „Ég segi ekki að ég sé hættur, en það þyrfti eitthvað mjög sérstakt til að ég myndi leika aftur. Ég er sáttur við að fylgjast með konunni minni vinna,“ sagði hann og átti þar við Catherine Zeta-Jones.
Ásamt Douglas tók Paul Zaentz, frændi framleiðandans Saul Zaentz, einnig til máls og lagði áherslu á mikilvægi einstaklingsfrelsis og andófs, lykilþemu í verkum leikstjórans Miloš Forman. Hann rifjaði upp að árið 1983 hefði tékkneska leyniþjónustan komið í heimsókn eftir að hann sýndi One Flew Over the Cuckoo’s Nest í Prag, þar sem myndin var bönnuð.
„Það er kaldhæðnislegt að 42 árum síðar sé myndin heiðruð hér, á meðan bókin sem hún byggir á gæti jafnvel verið bönnuð í Bandaríkjunum,“ sagði Zaentz. Hann gagnrýndi einnig Donald Trump harðlega og vísaði til nýrrar löggjafar sem forsetinn skrifaði undir 4. júlí, sem hann sagði „gera ríka ríkari og svipta fátækt fólk mat og heilbrigðisþjónustu“.
Zaentz lauk með ákalli: „Gefist ekki upp á Ameríku.“ Hann minnti á slagorðið frá Víetnam-stríðinu, „We shall overcome“, og bætti við: „Við munum sigrast á þessu spillta, siðlausa og föðurlandssvikna fyrirbæri. Ég er viss um að Miloš væri sammála mér að Trump sé blettur á okkar þjóð.“
Að lokum opinberaði Zaentz að hann væri í samstarfi við fjölskyldu rithöfundarins Ken Kesey um að þróa sjónvarpsþáttaröð byggða á bókinni, þar sem sögusviðið yrði út frá sjónarhorni sögumannsins Chief Bromden. Þar myndi persóna Jack Nicholsons deyja í lok fyrstu þáttaraðar, en önnur færi svo í kjölfarið með sögu Bromdens.
„Aldrei endurgerð á myndinni, en þessi nálgun er í lagi,“ sagði Zaentz.
Komment