Leiðindaatvik kom upp á Laugardalsvelli á mánudaginn þegar búið var að flauta til leiksloka í leik Íslands við Frakkland í knattspyrnu karla. Þá ákvað áhorfandi, klæddur íslenskum landsliðsbúningi, að hlaupa inn á leikvöllinn en slíkt er stranglega bannað.
„Þetta er bara því miður eitthvað sem gerist af og til í knattspyrnuheiminum, ekki bara á Íslandi, og þá sérstaklega í leikjum þar sem eru stórstjörnur að spila,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Mannlíf.
„KSÍ eins og önnur knattspyrnusambönd og knattspyrnufélög gerir ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta gerist, en eins og fólk hefur eflaust séð í myndböndum frá leikjum annars staðar í heiminum, þá sleppur stundum einhver í gegn,“ sagði framkvæmdastjórinn.
Áhorfandinn virtist ekki gera tilraun til að komast nærri leikmönnum þegar hann hljóp inn á völlinn en gæslumönnum gekk illa að klófesta hann. Eysteinn segir að málið sé í skoðun hjá KSÍ.
„Þetta kemur eflaust líka fram í skýrslu eftirlitsmanns leiksins. Við skoðum þá skýrslu þegar hún kemur og í framhaldinu munum við taka ákvörðun um næstu skref.“
Þá segir Eysteinn KSÍ muni mögulega kæra einstaklinginn til lögreglu. „Við megum alveg búast við sekt. Sektir sem koma frá UEFA og FIFA eru þungar, sbr. nýlegt dæmi úr Evrópuleik hjá karlaliði Breiðabliks,“ sagði Eysteinn.
„Það er alls ekki útilokað að KSÍ einfaldlega leggi fram kæru til lögreglu,“ sagði framkvæmdastjórinn að lokum.


Komment