
Maður vopnaður keðjusög á hjúkrunarheimili var skotinn eftir átök við lögreglu og allt náðist á upptöku.
Myndband af atvikinu, sem átti sér stað í desember, sýnir Daniel H. Escalera, mann frá Indiana, sem var á River Glen hjúkrunarheimilinu í St. Charles í Illinois, þar sem hann ræsti keðjusög þegar lögreglumenn komu á vettvang.
Í myndbandinu sést lögreglumaðurinn skipa honum ítrekað að leggja niður keðjusögina, en Escalera segir að hann vilji bara sjá eiginkonu sína á sama tíma og hann reynir af krafti að koma tækinu í gang. Að lokum tekst honum að ræsa sögina en í kjölfarið skaut lögreglumaðurinn hann með rafbyssu. Hún dugði þó ekki til og stóð Escalera strax upp aftur með sögina, hljóp í gegnum mötuneyti og inn í gang á meðan hann öskraði.
Í annarri upptöku sést hvernig Escalera ræðst á lögreglumann með keðjusögina og slær hann með henni og missir hana niður áður en hann hleypur niður gang. Hann var að lokum skotinn af lögreglumönnum og lést í kjölfarið.
Í yfirlýsingu frá yfirvöldum kemur fram að Escalera hafi upphaflega verið á svæðinu til að saga niður tré þegar hann gekk inn í anddyrið og byrjaði að áreita íbúa með keðjusöginni. Krufning leiddi í ljós að Escalera var með amfetamín, metamfetamín og olanzapín, lyf sem er notað við meðhöndlun á geðklofa, í blóði sínu við andlát.
Lögreglumennirnir hafa verið hreinsaðir af allri sök í málinu og hefur verið hrósað af mörgum embættismönnum fyrir að reyna að lægja öldurnar áður en þeir hófu skothríð.
Komment