Mál á hendur tveimur lögreglumönnum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru í dag þingfest í héraðsdómi Reykjaness, en um tvö óskyld mál er að ræða.
Þau neita bæði sök í málunum tveimur en í öðru þeirra er Aníta Rut Harðardóttir sökuð um að hafa flett upp málum í upplýsingakerfi lögreglunnar, LÖKE, sem tengdust nákomnum vandamanni hennar.
Lögreglan hefur nú sent frá sér tilkynningu um málið.
Tilkynningu lögreglu
Embættið lítur málin mjög alvarlegum augum enda afar mikilvægt að lögreglan njóti trausts meðal borgaranna til þess að hún geti rækt hlutverk sitt.
Skýrar kröfur eru gerðar til þess að störf lögreglu séu unnin af fagmennsku og innan þeirra heimilda og reglna sem hún starfar eftir. Verði misbrestur þar á er tekið á þeim málum með viðeigandi hætti.
Í báðum tilvikunum þegar embættinu varð kunnugt um ætluð brot viðkomandi lögreglumanna voru tafarlaust sendar tilkynningar þar um til embættis héraðssaksóknara sem fer með rannsóknir á meintum brotum lögreglumanna.
Lögreglumennirnir sem um ræðir eru ekki við störf hjá embættinu.
Að öðru leyti mun embættið ekki tjá sig um umrædd mál sem nú eru til meðferðar hjá héraðssaksóknara.
                    

    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
Komment