
Í dagbók lögreglu frá því í gærkvöldi og í nótt er greint frá því að maður hafi verið handtekinn í miðbænum fyrir að hafa slegið dyravörð hnefahöggi þegar var verið að vísa honum út. Málið var afgreitt með skýrslutöku á lögreglustöð og laus að því loknu.
Tilkynnt var um einn einstakling sofandi ölvunarsvefni á skemmtistað. Brást illa við að vera vakinn, neitaði að gefa upp persónuupplýsingar og hafði uppi ógnandi tilburði. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Tilkynnt var um umferðarslys en þar hafði bifreið verið ekið á ljósastaur. Engin slys á fólki en bifreiðin var óökuhæf eftir. Þá fékk lögreglan einnig tilkynningu um ungmenni sem voru að kasta grjóti í bíla. Þau fundust ekki þrátt fyrir leit.
Lögreglan fékk tilkynningu um stórfellda líkamsárás við knæpu í Kópavogi. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og er málið í rannsókn.
Tilkynnt var um mögulega framleiðslu fíkniefna í iðnaðarhúsnæði og það reyndist vera á rökum reist. Samkvæmt lögreglu er málið í rannsókn.
Komment