
Lögreglan á Austurlandi hefur lokið rannsókn sinni á líkamsárás sem framin var á tjaldstæðinu í Fellabæ á Héraði þann 10. september síðastliðinn.
Árásin var gerð í kjölfar heitrar umræðu á íbúasíðu á Facebook en maðurinn sem ráðist var á sat inni fyrir gróf kynferðisbrot gegn ungri stúlku. Til stóð að maðurinn fengi íbúð í Fellabæ en dvaldi hann á tjaldstæðinu á meðan hann beið eftir að fá íbúðina afhenta.
Samkvæmt Hjalta B. Axelssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni er rannsókn málsins nú lokið og komið til afgreiðslu á Ákærusviði embættisins.
Í kjölfar árásarinnar á manninn sendi Múlaþing frá sér tilkynningu þar sem árásin var fordæmd og það ítrekað að sveitarfélaginu bæri skylda til þess að fylgja settum lögum og reglum, meðal annars að úthlutun á íbúð í eigu sveitarfélagsins.
„Mikilvægt er að hafa í huga að við búum í réttarríki þar sem fólk fær dóm og tekur hann út, að honum liðnum hefur sama fólk tilverurétt og þarf að geta aðlagast samfélaginu á ný,“ sagði ennfremur í tilkynningunni.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur maðurinn ekki enn flutt í téða íbúð í Fellabæ.

Komment