
Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tsjetsjníu í Rússlandi, var nærri því að drukkna í fríi sínu við strandbæinn Bodrum í Tyrklandi, samkvæmt fréttum fjölmargra tyrkneskra miðla, þar á meðal Haberler, Cumhuriyet, GZT og Oksijen.
Atvikið átti sér stað við fimm stjörnu hótel við sjóinn. Þegar Kadyrov gekk í sjóinn fór hann að taka andköf og samkvæmt sumum fréttum baðaði hann einnig höndum ákaft í vatninu.
Starfsfólk hótelsins, eða samkvæmt öðrum heimildum, landhelgisgæslan, kallaði til sjúkrabíl. Kadyrov fékk fyrstu hjálp á ströndinni og var svo fluttur á einkasjúkrahús. Fréttamiðlar segja að ástand hans sé nú stöðugt og hann sé ekki í lífshættu.
Samkvæmt rússneska miðlinum Agentstvo greindi staðbundin sjónvarpsstöð, Kent TV, frá því að Kadyrov hafi dvalið á Plaza Hotel og verið fluttur á American Hospital-sjúkrahúsið í Bodrum. Á föstudag birti Kent TV ljósmyndir af því sem talið er vera “bílafylgd leiðtoga Tsjetsjníu”, þar sem sjá má lögreglubíla og sjúkrabíl yfirgefa sjúkrahúsið.
Agentstvo bendir einnig á að síðustu staðfestu myndböndin af Kadyrov hafi verið birt 22. júlí á samfélagsmiðlum hans og í Telegram-rásum tengdum Grozny TV og Grozny-Inform.
Heilsa Kadyrovs hefur hrakað undanfarin ár. Novaya Gazeta Europe hefur greint frá því að frá árinu 2019 hafi hann farið reglulega í meðferð á Miðlæga klíníska sjúkrahúsinu í umsjón forsetaembættis Rússlands vegna alvarlegra veikinda í brisi.
Komment