
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur leikskólastarfsmanni á Múlaborg sem er grunaður um kynferðisbrot gegn börnum á leikskólanum. Þetta staðfestir Sigurður Ólafsson, saksóknari, í samtali við fréttastofu en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Að sögn Sigurðar verður ákæran send héraðsdómi á næstu dögum. Dómstóllinn mun annast birtingu hennar og ákveða hvenær málið verður tekið fyrir. Hann vildi ekki upplýsa hvaða ákvæði hegningarlaga ákæran nær til né hversu mörg börn málið varðar, en vísaði frekari spurningum til héraðsdóms. Sigurður sagði þó líklegt að þinghald í málinu verði lokað.
Í fréttum í byrjun október kom fram að maðurinn, sem hafði starfað sem leiðbeinandi á leikskólanum í um tvö ár þegar málið kom upp, sé grunaður um að hafa brotið gegn fleiri en tíu börnum.
Maðurinn var handtekinn 12. ágúst eftir að barn á leikskólanum greindi foreldrum sínum sjálft frá meintum kynferðisbrotum.

Komment