
Embætti landlæknis hefur sent frá sér viðvörun vegna alvarlegrar heilsufarsógnar sem tengist fegrunarmeðferðum með ólöglegu bótúlíneitri. Tilefnið eru nærri 40 staðfest tilfelli af bótúlíneitrunum í Bretlandi á undanförnum þremur mánuðum, þar sem hluti sjúklinga þurfti gjörgæslumeðferð.
Samkvæmt tilkynningu embættisins voru helstu einkenni eitrunarinnar óskýrt tal, erfiðleikar við kyngingu og öndunarvandamál. Tuttugu og tveir einstaklingar voru lagðir inn á sjúkrahús, þar af sjö á gjörgæslu. Þrátt fyrir að bótúlíneitranir séu sjaldgæfar geta þær reynst lífshættulegar.
Landlæknir ítrekar að fólk eigi einungis að fara í slíkar meðferðir hjá læknum með gilt starfsleyfi. Hægt er að skoða starfsleyfaskrá á vef embættisins til að ganga úr skugga um að meðferðaraðili sé löglegur.
Hingað til hafa engar bótúlíneitranir greinst á Íslandi, en embættið bendir á að einkenni geti tekið allt að fjórar vikur að koma fram. Þá liggja fyrir upplýsingar um að ólöglegar vörur með bótúlíneitri hafi borist til landsins og verið notaðar hér, og lögregla hefur verið upplýst um málið.
Þeir sem hafa nýlega farið í fegrunarmeðferð hjá aðila án starfsleyfis eru hvattir til að hafa samband í síma 1700 fyrir ráðgjöf.
Komment