Fjórhjólamenn gerðu aðsúg að formanni Landeigendafélags Hrauns, sem á land að hrauninu sem vellur upp úr eldgosinu á Sundhnúkagíg, fyrr í kvöld.
Samkvæmt frásögn formannsins, Sigurðar Guðjóns Gíslasonar, höfðu fjórhjólamennirnir farið án leyfis á slóða sem liggur að hraunjaðrinum í Fagradal og á öðrum slóða upp fjallið. Þegar hann fór til móts við þá hafi þeir framkallað árekstur og hópast að honum með upptöku á síma.
„Ég kem bara til að stoppa hann og rétt áður en ég næ því gefur hann í og tekur aðeins hérna," sagði Sigurður á vettvangi við blaðamann Mannlífs. „Þá kemur félagi hans strax út með myndavél, konan með símann," segir hann. Við svo búið hafi fjórhjólamennirnir hrópað: „Þú keyrðir á hann! Þú keyrðir á hann!"
„Og allir með myndavélarnar í andlitinu á mér. Þetta lið er búið að læra alltof mikið af Youtube," sagði Sigurður.
Þegar áreksturinn varð brást hann við af festu. „Endilega. Þetta er kaskótryggt, ábyrgðartryggt. Ég ætla samt að kæra ykkur. Þá koðnaði allt niður."
Ekki var um nein líkamleg átök að ræða, þótt Sigurði hafi orðið hverft við.


„Þegar það koma fimm sex á móti manni og ætla í mann. Maður er vanur þessu frá því að afi gamli heitinn var með haglarann þegar menn voru að spóla upp um allt, hótuðu að lemja hann og berja hann og ég veit ekki hvað og hvað. Þá sat maður í aftursætinu," segir hann.
Slóðinn sem um ræðir er nýr. Veglagningin var af hálfu landeigendanna og þjónaði þeim tilgangi að auðvelda aðgengi að gömlu gígunum austan megin, í Fagradalsfjalli.
Eins og Mannlíf greindi frá á föstudag er rútuþjónustan Icelandia, sem er í eigu Kynnisferða, með einkarétt á ferðum um slóðann. „Við erum allir að vilja gerðir til að leysa alls konar vandamál ef menn bara biðja. En þetta er sérleyfi sem Icelandia er með.“
„Við gerum þennan veg til að skoða gamla gíginn. Þetta er búið að vera í deiliskipulagsvinnu síðan 2021. Svo erum við nýbúin að klára þetta og þá gýs á fullkomnum stað hér. Og þá byrja allir að labba stíginn. Þá á ekki saman að vera með fulla umferð. Það þarf að skammta umferðina inn á þetta. Við erum samt með leyfi til að vera með hópa til hliðar og veita einhverjum aðgang að þessu. Kvikmyndaverkefni og þannig.“
Undir lok átakanna á slóðanum ákváðu fjórhjólamennirnir að bakka. „Hvað ef við biðjumst afsökunar?“ spurði einn þeirra.
„Hvað ef við biðjumst afsökunar?“
Sigurður hefur enn ekki ákveðið hvort hann kæri fjórhjólamennina.
„Yfirleitt horfir maður í gegnum fingur sér með þetta. Ég ætlaði bara að hitta þá og biðja þá að fara bara í burtu friðsamlega, eða þá að ég endi á að kæra ef þær ætluðu ekki að gera það, en svo fór þetta eins og þetta fór. Svo fóru þeir ægilega sorry.“
Hann kvaddi þá með þeim orðum að þeir ættu að fara beinustu leið til baka og lofa að hringja og fá leyfi, vilji þeir fara veginn.
„Ég sagðist ekki geta lofað því að löggan myndi ekki stoppa þá hérna hinum megin. Þeir eru náttúrulega að fara í annarra manna land hér hinum megin að keyra fyrir utan veg líka. Þeir eru allavega á slóða, þó þeir séu ekki í leyfi þar. Umhverfisstofnun vill ekkert gera nema menn fari að spóla upp eitthvað nýtt,“ sagði Sigurður við hraunið fyrr í kvöld.
Landeigendur í Hrauni taka þúsund krónur fyrir hvern bíl sem lagt er á landi þeirra og er rukkað í gegnum Parka-appið. Sem fyrr segir þarf göngufólk að deila slóðanum með fjallarútum Icelandia.

Komment