
Vara frá Lambhaga hefur undanfarið verið seld í verslunum sem „spínat“, þrátt fyrir að í raun sé um spínatkál að ræða. Bændablaðið sagði frá málinu.
Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur (HER) barst í sumar kvörtun frá neytanda vegna breytinga á merkingum vörunnar „spínatkál“. Þar hafði orðið „spínat“ verið sett í staðinn, ásamt latneska heitinu brassica rapa. Rétt latneskt heiti á spínati er hins vegar spinacia oleracea.
HER veitti fyrirtækinu frest til 1. ágúst til að leiðrétta merkingar. Í eftirliti í september kom í ljós að varan hafði enn ekki verið endurmerkt og var þá ítrekað við Lambhaga að gera úrbætur. Fyrirtækið svaraði að nýir miðar væru í prentun og hefur nú staðfest að framvegis verði vörunni merkt „spínatkál“ á skýran hátt. Anna Jóhannesdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá HER, segir að málinu verði fylgt áfram eftir.
Svipað mál komið upp áður
Árið 2016 barst einnig kvörtun vegna rangra merkinga hjá Lambhaga. Þá var vara merkt sem „Lambhagaspínat“ en við eftirlit kom í ljós að hún var í raun tegundin brassica rapa, einnig þekkt sem Komatsuna eða „Japanese mustard spinach“.
Eftir athugasemdir HER ákvað fyrirtækið að nota heitið „spínatkál“. Málið var borið undir Matvælastofnun (MAST), sem taldi merkinguna heimila þar sem orðið spínat væri algengt í samsettum heitum á öðrum tegundum, til dæmis Fjallaspínati.
Síðan hefur Lambhagi selt vöruna sem spínatkál, með latneska heitinu fylgjandi. HER telur að það geri neytendum ljóst að ekki sé um hefðbundið spínat (spinacia oleracea) að ræða.
Komment