Maður sem hefur kvartað vegna ómannúðlegrar meðferðar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur verið 12 sinnum ákærður á stuttum tíma en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögregluembættinu. Segir maðurinn, í gegnum lögmann sinn, að honum hafi verið hótað með rafbyssu, verið sveltur og beittur piparúða meðan hann var í varðhaldi.
Lögreglan segir að NEL, sem tekur á móti slíkum kvörtunum, hafi áður fjallað um mál þessa manns.
„Nú liggur fyrir að lögmaðurinn sendi nýja kvörtun fyrir hönd sama umbjóðanda til NEL síðastliðinn föstudag. Kvörtunin virðist lúta að þremur atvikum; frá október 2024, mars 2025 og júlí 2025. Embættinu hefur enn ekki gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum og leggja fram gögn í málinu. Þá telur embættið vandkvæðum bundið að fjallað sé um kvartanir til NEL í fjölmiðlum án þess að NEL hafi lokið athugun sinni á málavöxtum,“ segir lögreglan.
„Óhjákvæmilegt er þó að nefna að varðandi handtöku í júlí 2025, þá var viðkomandi í framhaldi gert að sæta síbrotagæslu með úrskurðum Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem staðfestir voru í Landsrétti frá 10. júlí 2025 til 2. október 2025 vegna tuga mála sem voru til rannsóknar hjá lögreglu. Gefnar hafa verið út 12 ákærur á hendur viðkomandi vegna 24 mála. Allar ákærurnar hafa verið þingfestar í Héraðsdómi Norðurlands eystra.“
Embættið segir að það muni afhenda NEL öll gögn málsins vegna kvartana sakborningsins um leið og óskað verður eftir því.


Komment