
Kristinn Hrafnsson segir dóm Hæstaréttar í Brúneggjamálinu vera stórmerkilegan sigur fyrir nánast alla aðra en Brúneggjaframleiðenduna.
Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson fagnaði dómi Hæstaréttar en í gær sýknaði rétturinn Ríkisútvarpið og Matvælastofnun af kröfum Bala ehf. og Geysis-Fjárfestingafélags ehf. í hinu svokallaða Brúneggjamáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað báðar stofnanir en Landsréttum komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að MAST bæri skaðabótaábyrgð og dæmdi stofnunina til að greiða félögunum fjórar milljónir hvoru um sig.
„Dómur Hæstaréttar í dag í Brúneggjamálinu er stórmerkilegur sigur fyrir neytendur, fyrir blaðamenn og starfsmenn hins opinbera. Þar er tekið skýrt fram að starfsmenn MAST voru ekki bara í fullum rétti að afhenda gögn sem snéru að eftirliti með Brúneggjaframleiðeindum. Þeim var það skylt. Þeir máttu líka tjá sig við fjölmiðla um málefnið enda ríkir hagsmunir neytenda undir. Það var réttur þeirra að útskýra fyrir blaðamönnum RUV um hvað málið snérist og setja það í samhengi.“ Þannig hefst færsla Kristins sem hann birti í gærkvöldi á facebook.
Kristinn nefnir því næst Ríkisútvarpið og bendir á að stofnunin hafi sigrað á öllum dómstigum en fagnar að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að blaðamenn hafi sinnt hlutverki sínu af kostgæfni.
„RUV sigraði á öllum dómstigum. Ágætt samt að fá Hæstaréttardóm um að blaðamenn hefðu verið að sinna hlutverki sínu, hafi gert það af kostgæfni og í góðri trú og að þeirra hlutverk væri ríkt og mikilvægt í samfélaginu. Þeirra réttur og skyldur væru varðar í Mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir þyrftu að vera faglegir og í góðri trú. „Ekki er þó gerð sú krafa að fjölmiðlamenn geti sýnt fram á fulla sönnun allra staðhæfinga enda myndi slík regla skerða um of svigrúm fjölmiðla sem hafa sem fyrr segir sérstökum skyldum að gegna sem helsta upplýsingaveita almennings. Nægir því almennt að staðhæfing sé sett fram í góðri trú.“.“
Bætti hann við kafla úr dóminum:
„Fréttamenn Ríkisútvarpsins ohf. töldust því í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna og nutu jafnframt frelsis til þess að setja þau fram með þeim hætti sem gert var í sjónvarpsþættinum.“
Að lokum segir Kristinn að „Brúneggjabræðurnir“ hafi bæði „skíttapað“ og þurft að greiða RÚV og MAST milljónir í málskostnað.
„Brúneggjabræðurnir sem stefndu í málinu skíttöpuðu ekki aðeins, heldur þurfa að greiða MAST og RUV átta milljónir króna í málskostnað.
Þátturinn um Brúnegg var sýndur í Kastljósi fyrir 8 1/2 ári síðan.“
Komment